Erlent

Charles Manson látinn

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Charles Manson er einhver alræmdasti glæpamaður Bandaríkjanna.
Charles Manson er einhver alræmdasti glæpamaður Bandaríkjanna. Vísir/AFP
Charles Manson, sem fyrirskipaði fylgjendum sínum að myrða leikkonuna Sharon Tate og sex aðra í ágúst 1969, er látinn. Hann var 83 ára gamall.

Hann var dæmdur í ævilangt fangelsi fyrir aðild sína að morðunum sem fyrir mörgum mörkuðu endalok hippatímabilsins í Bandaríkjunum. Manson er einhver alræmdasti glæpamaður Bandaríkjanna en hann átti sér fjölmarga fylgjendur, sér í lagi ungar konur, á sjöunda áratugnum. Hann myrti engan sjálfur en dómari taldi fullsannað að hann hafi fyrirskipað fjölda morða.

Sjá einnig. Manson fluttur á sjúkrahús

Manson hefur verið við dauðans dyr svo mánuðum skiptir. Hann var lagður inn á sjúkrahús í janúar síðastliðinn til að gangast undir aðgerð. Læknar mátu það hins vegar svo að hann væri of heilsuveill til að þola aðgerðina og var hann því sendur til baka í Corcoran-fangelsið þar sem hann hefur hírst í næstum 30 ár.

Manson var upphaflega dæmdur til dauða en dómnum var breytt eftir að hæstiréttur Kalíforníu komst að því að dauðarefsing væri andstæð stjórnarskránni. Hann sótti alls 12 sinnum um reynslulausn en ætíð neitað, síðast árið 2012.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×