Erlent

Charles Manson fluttur á sjúkrahús

Atli Ísleifsson skrifar
Charles Manson er einhver alræmdasti glæpamaður Bandaríkjanna.
Charles Manson er einhver alræmdasti glæpamaður Bandaríkjanna. Vísir/afp
Bandaríski raðmorðinginn Charles Manson hefur verið lagður inn á sjúkrahús í Kaliforníu, en fimm lögreglumenn fylgdu honum þegar hann var fluttur úr Corcoran-fangelsinu.

LA Times hefur fengið staðfest hjá lögreglu að Manson hafi verið fluttur á sjúkrahús í Bakesfield fyrir þremur dögum síðan, en hann afplánar nú lífstíðardóm vegna fjölda morða og var síðast neitað um reynslulausn árið 2012.

Ekki liggur fyrir um ástæður þess að hann var lagður inn en samkvæmt heimildum TMZ, sem greindi fyrst frá málinu, á Manson ekki mikið eftir.

Fangelsismálayfirvöld í Kaliforníu vilja ekkert tjá sig um ástandið á Manson en staðfesta að hann er enn á lífi. Manson var lagður inn á sjúkrahús í janúar síðastliðinn til að gangast undir aðgerð. Læknar mátu það hins vegar svo að hann væri of heilsuveill til að þola aðgerðina og var hann því sendur til baka í fangelsið.

Manson er einhver alræmdasti glæpamaður Bandaríkjanna, en hann átti sér fjölmarga fylgjendur, sér í lagi ungar konur, á sjöunda áratugnum. Manson drap engan sjálfur en dómari taldi fullsannað að hann hafi fyrirskipað fjölda morða, meðal annars á leikkonunni Sharon Tate árið 1969.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×