Enski boltinn

Klopp: Gylfi fæddur í að taka föst leikatriði

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Jürgen Klopp.
Jürgen Klopp. Vísir/Getty
Jurgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, býst við erfiðum leik þegar Everton mætir á Anfield á sunnudaginn.

„Sam Allardyce er einn reyndasti stjóri deildarinnar. Ég er bara búinn að vera hérna í tvö ár og hef mætt honum með þrjú mismunandi félög,“ sagði Klopp á blaðamannafundi fyrir leikinn.

„Þú veist hvað þú færð, en það gerir það ekki einfaldara. Það er erfitt að spila gegn öllum liðum Allardyce, en við erum á góðum stað og verðum að læra af okkar mistökum.“

„Ég býst við góðu skipulagi og greinilegri uppbyggingu. Virkilega góðum föstum leikatriðum. Sigurðsson var fæddur til þess að framkvæma þau. Mikil barátta um seinni boltann,“ sagði Jurgen Klopp.

Liverpool fór létt með lið Spartak Moskvu í Meistaradeild Evrópu í vikunni, liðið vann 7-0 sigur. Klopp á þó ekki von á jafn einföldum leik í þetta skiptið.

„Ekki búast við því að við spilum eins fótbolta og síðustu 20 mínúturnar á móti Moskvu. Við þurfum að byrja frá grunni og vera fullkomlega skipulagðir og tilbúnir í harðar tæklingar. Þá getum við unnið leikinn.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×