Skoðun

Nýja stjórnin hækkar lífeyri aldraðra ekkert!

Björgvin Guðmundsson skrifar
Ný ríkisstjórn hefur verið mynduð, ríkisstjórn Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknar. Sáttmáli þessarar stjórnar var undirritaður 30. nóvember 2017. Nokkur eftirvænting ríkti eftir því hvernig þessi nýja stjórn yrði, til dæmis hvort Vinstri græn kæmu fram einhverjum af sínum stefnumálum og hvort lífeyrir aldraðra yrði hækkaður. Allir stjórnmálaflokkar töluðu fallega um eldri borgara í kosningabaráttunni og gáfu til kynna að þeir vildu hækka lífeyri þeirra.

Þeir, sem verst eru staddir af eldri borgurum, eru með lífeyri niðri við fátæktarmörk. Ég átti von á því, að nýja stjórnin mundi bæta hér eitthvað úr en því miður. Þegar nýi stjórnarsáttmálinn sá dagsins ljós kom fram, að nýja ríkisstjórnin ætlaði ekki að hækka lífeyri aldraðra um eina krónu.

Þegar kosningabaráttan hófst tilkynnti Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, að hann vildi, að frítekjumark vegna atvinnutekna aldraðra yrði hækkað í 100 þúsund kr. á mánuði. Þetta frítekjumark var 109 þúsund kr. á mánuði fram til síðustu áramóta en var lækkað eftir áramót.

Framsóknarflokkurinn boðaði fyrir kosningar, að flokkurinn vildi afnema frítekjumarkið, þ.e. hafa það frjálst að eldri borgarar gætu unnið án skerðinga lífeyris almannatrygginga. Vinstri græn gáfu til kynna fyrir kosningar, að þau vildu hækka lífeyri eitthvað.

En niðurstaðan í þágu eldri borgara var eins og Sjálfstæðisflokkurinn hefði verið einn í stjórn: Stefna Sjálfstæðisflokksins réð. Hvorki var tekið tillit til stefnu Framsóknar varðandi frítekjumark atvinnutekna né stefnu Vinstri grænna varðandi lífeyri lægst launuðu eldri borgara.

Í stjórnarsáttmálanum var aðeins minnst á, að frítekjumark vegna atvinnutekna ætti að vera 100 þús kr. á mánuði en ekkert rætt um hækkun lífeyris: Margir eldri borgarar munu hafa búist við því, að lífeyrir aldraðra yrði hækkaður ríflega, þegar „vinstri“ flokkurinn VG væri kominn í stjórn. En það var öðru nær. Lífeyrir var ekkert hækkaður. Sjálfstæðisflokkurinn réð ferðinni í þessum efnum eins og áður. Vinstri grænir höfðu greinilega engin áhrif á stefnuna í kjaramálum aldraðra.

VG setti ekki nægilegt mark á sáttmálann

Andrés Ingi Jónsson, annar tveggja þingmanna VG sem greiddu atkvæði á móti því að VG færi í opinberar viðræður við Sjálfstæðisflokk og Framsókn um stjórnarmyndun, greiddi einnig atkvæði á móti stjórnarsáttmálanum og flutti mjög athyglisverða ræðu við það tækifæri. Þar sagði hann, að hann hefði ekki treyst sér til þess að styðja stjórnarsáttmálann, þar eð VG hefði ekki getað sett nægilegt mark á sáttmálann. Sjálfstæðisflokkurinn hefði ráðið of miklu um sáttmálann. Andrés Ingi nefndi nokkur dæmi þessu til staðfestingar. Hann nefndi launa- og kjaramál, varnarmál og uppreist æru og trúnaðarbrest.

Ég get bætt við dæmi um hækkun lífeyris aldraðra. Í þeim málaflokki hefur VG ekki komið neinum stefnumálum í gegn. Í stjórnarsáttmálanum er ekkert rætt um að hækka lífeyri aldraðra. Hins vegar er ákvæði í sáttmálanum um kjaramál öryrkja og óskað viðræðna við öryrkja um þau mál og að leitað verði sátta. Kjaramál öryrkja voru aldrei fullafgreidd, þegar ný lög um almannatryggingar voru afgreidd á Alþingi 2016.

Í tengslum við afgreiðslu á nýjum lögum um almannatryggingar, sem tóku gildi 1. janúar 2017, var gert ráð fyrir, að lífeyrir aldraðra mundi hækka 1. janúar 2018 til samræmis við þá hækkun, sem átti að verða á lágmarkslaunum 2018. Þessi hækkun á lífeyri verður 12.000 kr. eftir skatt hjá einhleypum eldri borgurum 1. janúar 2018 en þá hækkkar lífeyrir eftir skatt úr 230 þúsund kr. á mánuði í 242 þúsund á mánuði.

Hundsa kröfur aldraðra um hækkun lífeyris!

Ég var fremur svartsýnn, þegar ég ræddi um nýtt Alþingi og líkurnar á því að það mundi bæta mikið kjör eldri borgara og öryrkja. Það var ekki búið að mynda ríkisstjórn þá. En ég játa, að það hvarflaði ekki að mér, að ríkisstjórnin mundi gersamlega hundsa kröfur aldraðra um hækkun lífeyris. En það hefur nú gerst. Þótt Félag eldri borgara í Reykjavík hafi haldið stóran fund um baráttuna fyrir því að lyfta lífeyri aldraðra vel upp fyrir fátæktarmörk og stjórnmálaflokkarnir hafi sýnt skilning á því hefur ekkert gerst í því efni. Aðild VG að ríkisstjórninni hefur ekki dugað til þess að lyfta lífeyri aldraðra upp. Sá lífeyrir er enn niðri við fátæktarmörk.

 

Höfundur er viðskiptafræðingur.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×