Innlent

Fjármögnuðu gönguskíði fyrir leikskólabörn með sushi-sölu

Aron Ingi Guðmundsson skrifar
Börnin voru himinlifandi með gjöfina.
Börnin voru himinlifandi með gjöfina. mynd/Ágúst G. Atlason.
Hópur kvenna á Ísafirði sem kalla sig Gullrillurnar, gáfu leikskólanum Tanga á Ísafirði gönguskíði að gjöf. Hópurinn fjármagnaði skíðin með því að selja sushi en markmiðið er að gefa fleiri leikskólum á Vestfjörðum skíði og þannig stuðla að frekari gönguskíðamenningu.

„Okkur langaði að gera eitthvað skemmtilegt, hér er mikil skíðamenning og þess vegna kom þessi hugmynd upp. Við ákváðum að hafa fjáröflun, búa til sushi og selja en það er enginn sushi staður á Ísafirði og alla  langaði í sushi. Þannig að við seldum sushi og fyrir ágóðan af því keyptum við sem sagt gönguskíði sem við gáfum Tanga,“ segir Ásgerður Þorleifsdóttir, einn meðlimur Gullrillanna.

Krakkarnir á Tanga.vísir/ágúst g. atlason
Tveir leikskólar eru á Ísafirði, en Tangi er deild innan leikskólans Sólborgar. Deildin er fyrir fimm ára börn, elstu börnin á leikskólaaldri. Gullrillurnar eru hópur kvenna frá Ísafirði sem koma úr ólíkum áttum. 

„Við kynntumst í kjölfarið af jafnréttisráðstefnu um árið og vorum allar svo pumpaðar eftir þá ráðstefnu að við ákváðum að gera eitthvað skemmtilegt saman í kjölfarið. Við höfum sett okkur ýmis markmið í gegnum tíðina og brallað margt.“



Ýmislegt á döfinni

Ásgerður segir það kost að búa í litlu samfélagi. „Bobbi í Kraftsport sem er með umboðið fyrir þessa skíðategund fékk gott tilboð frá skíðaframleiðandum úti, svo þegar við fórum að sækja skíðin þá var forstöðumaður skíðasambandsins á Ísafirði í versluninni og hann stökk af stað og gerði skíðabraut í hvelli. Svo kom Gústi ljósmyndari og tók myndir og video þannig að þetta small allt skemmtilega saman.“

Markmiðið er að stuðla að frekari gönguskíðamenningu á Vestfjörðum.vísir/ágúst g. atlason
Krakkarnir á Tanga voru mjög ánægð og spennt yfir gjöfinni að sögn Ásgerðar, en gjöfin er liður í að stuðla að gönguskíðamenningu á staðnum. „Það má segja að þetta sé gönguskíðabær Íslands, algjör gönguskíðaparadís, það er alltaf hægt að komast á gönguskíðasvæðið eftir að það fer að snjóa, þar er alltaf opið.“

Og verkefninu er ekki hér með lokið. „Fleiri fyrirtæki vilja taka þátt í þessu með okkur og hafa lýst yfir vilja til að kaupa fleiri skíði. Næst á dagskrá er Flateyri, við erum búin að fá styrk til að gefa leikskólanum þar gönguskíði. Svo er Þingeyri og Suðureyri eftir, það væri frábært að geta gefið leikskólum í nærliggjandi bæjum líka skíði.“

Ásgerður bendir að lokum á að ef einhver vill vera með í að styrkja þetta verkefni þá sé hægt að hafa samband við Gullrillurnar á síðunni þeirra á Facebook.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×