Innlent

Afsláttur af námslánum til að efla byggðir

Aðalheiður Ámundadóttir skrifar
Menntamálaráðherra hyggst kanna kosti þess að nýta námslánakerfið til að hvetja fólk til að setjast að í dreifðum byggðum.
Menntamálaráðherra hyggst kanna kosti þess að nýta námslánakerfið til að hvetja fólk til að setjast að í dreifðum byggðum.
„Þetta gengur út á að fólk sem býr og vinnur á svokölluðum aðgerðasvæðum og er með námslán gæti sótt um afslátt af námslánum,“ segir Lilja Alfreðsdóttir, nýr menntamálaráðherra. Hún hyggst kanna kosti þess að nýta námslánakerfið til að hvetja fólk til að setjast að í dreifðum byggðum, í samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar.

Lilja vísar til reynslu Norðmanna af þessari leið þar sem fólk getur fengið tíu prósenta lækkun á námslánum árlega hafi það búið á tilgreindum svæðum í tólf mánuði.

„Þar hefur þessu úrræði verið beint inn á svæði þar sem skortur hefur verið á sérfræðimenntuðu fólki,“ segir Lilja. Úrræðið hafi skilað töluverðum árangri í Norður-Noregi og laðað til dæmis lækna og tæknimenntað fólk á strjálbýl svæði.

„Í mörgum tilvikum hefur þetta fólk ílengst á svæðinu eftir að námslán þess eru greidd að fullu.“

Aðspurð um þau svæði sem myndu njóta þessa úrræðis segir Lilja að það gæti verið breytilegt en um yrði að ræða svæði þar sem erfitt reynist að halda uppi tiltekinni þjónustu vegna skorts á sérfræðimenntuðu fólki.

Eins og fram kemur í stjórnarsáttmálanum kemur til greina að fleiri hvatar til landsbyggðarbúsetu verði kynntir. Reynslan í Noregi hefur sýnt að þetta úrræði dugar ekki eitt og sér til að halda fólki í strjálbýlinu. Ráðast þurfi í aðrar aðgerðir samhliða.

Lilja segir ekki liggja fyrir hvenær frekari tíðinda sé að vænta af þessu úrræði en þetta verði unnið í tengslum við heildarendurskoðun námslánakerfisins.

„Liður í þeirri endurskoðun þarf að vera hvernig hvata við getum sett til að efla þekkingarsamfélagið úti á landi. En auðvitað snýst þetta fyrst og síðast um innviðauppbyggingu um landið og þá þjónustu sem er í boði,“ segir Lilja Alfreðsdóttir. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×