Erlent

Fyrrverandi forseti Jemen sagður hafa verið drepinn

Atli Ísleifsson skrifar
Ali Abdullah Saleh var forseti Norður-Jemen á árunum 1978 til 1990 og var þá gerður að fyrsta forseta Jemen.
Ali Abdullah Saleh var forseti Norður-Jemen á árunum 1978 til 1990 og var þá gerður að fyrsta forseta Jemen.
Ali Abdullah Saleh, fyrrverandi forseti Jemen, hefur verið drepinn í höfuðborginni Sanaa. Frá þessu var greint á útvarpsstöð Húta í landinu fyrr í dag.

Al Jazeera greinir frá því að myndir af því sem sagt er vera lík Saleh hafi farið í dreifingu á samfélagsmiðlum fyrr í dag. Má þar sjá vopnaða menn notast við lak til að flytja líkið Saleh upp á pall pallbíls.

Fréttirnar hafa enn ekki fengist staðfestar frá óháðum aðilum, en talsmaður flokks Saleh sagði fyrr í dag að forsetinn hafi stýrt sveitum í baráttunni gegn uppreisnarmönnum Húta í Sanaa. Al Jazeera segir þó að forsetinn hafi ekki birst opinberlega frá því að fréttir af láti hans birtust fyrst.

Saleh var forseti Norður-Jemen á árunum 1978 til 1990 og var þá gerður að fyrsta forseta Jemen. Hann gegndi embættinu til ársins 2012 þegar varaforsetinn Abd Rabu Mansur Hadi tók við.

Saleh og stuðningsmenn hans höfðu, þar til í síðustu viku, barist við hlið Húta gegn forsetanum Hadi og sveitum hans, allt frá upphafi borgarastríðsins í landinu árið 2015.

Í síðustu viku blossuðu svo upp deilur á milli Saleh og Húta, meðal annars um yfirráð yfir stærstu mosku Sanaa, sem leiddu til blóðugra átaka í höfuðborginni. Er áætlað að 125 manns hafi látið lífið og á þriðja hundrað særst síðan á miðvikudag.

Sameinuðu þjóðirnar áætla að tæplega níu þúsund manns hafi fallið og um 50 þúsund særst í átökum í Jemen síðan í mars 2015.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×