Innlent

Erlendir fjölmiðlar um HM-dráttinn: „Ísland fær hrottafenginn fyrsta leik“

Birgir Olgeirsson skrifar
"Þetta er erfiður riðill og það gæti orðið erfitt að sjá þá komast í 16-liða úrslit. En aldrei segja aldrei.“
"Þetta er erfiður riðill og það gæti orðið erfitt að sjá þá komast í 16-liða úrslit. En aldrei segja aldrei.“ Vísir/Getty
„Argentínumenn verða hreint ekki sáttir,“ segir á vef New York Times um D-riðilinn í Heimsmeistaramóti karla í knattspyrnu sem fram fer í Rússlandi á næsta ári. Argentína dróst í D-riðil ásamt Króatíu, Íslandi og Nígeríu og segir á vef New York Times að þessi riðill verði sá erfiðasti en jafnframt sá áhugaverðasti. 

„Argentína er nýbúið að tryggja sér sæti á HM, Króatía býr yfir gnótt af einstaklingshæfileikum, Ísland býr yfir gífurlegum liðsstyrk og Nígería var sterkasta liðið úr fjórða styrkleikaflokki,“ segir á vef New York Times.

„Ísland fær hrottafenginn fyrsta leik á HM,“ segir í fyrirsögn Yahoo Finance um þá niðurstöðu að Ísland verði í D-riðli þar sem það mætir Argentínu í fyrsta leik í Moskvu. CBS Sport setur Ísland í annað sæti á lista yfir þau lönd sem fengu versta dráttinn. 

„Þessi töfrandi Evrópuþjóð sem fangaði hjörtu margra á Evrópumótinu 2016,“ segir í grein CBS Sports en þar var Ísland talið það lið sem gæti komið hvað mest á óvart með því að ná í sextán liða úrslit. Eftir dráttinn, sem gat varla farið verr fyrir Ísland að mati blaðamanns CBS Sports, gæti það orðið erfiðara. 

„Þetta er erfiður riðill og það gæti orðið erfitt að sjá þá komast í 16-liða úrslit. En aldrei segja aldrei.“

„Það er ekki hægt að afskrifa Ísland,“ segir fyrrverandi landsliðsmaður Nígeríu í knattspyrnu, Austin Eguavoen, um þá staðreynd að Nígería er í riðli með Argentínu, Króatíu og Íslandi. 

Nígería hefur fjórum sinnum mætt Argentínu á HM og tapað í öll skiptin. Eguavoen segir Nígeríu ekki mega að einblína á leikinn við Argentínu, Króatar séu gríðarlega sterkir og þá sé ekki hægt að afskrifa Ísland. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×