Fyrsta kvöldið verður laugardaginn 2.desember. Þá fær Oculus til liðs við sig frábæran hóp af tónlistarmönnum en auk hans koma fram Púlsvídd, Orang Volante og Kraftgalli.
Oculus ætlar að trylla lýðinn með frumflutningi á nýju og óútgefnu efni en hann hefur að undanförnu unnið hörðum höndum í hljóðverinu að nýrri útgáfu.
Tvíeykið Púlsvídd skipa listamennirnir Xylic og Daveeth. Hljómsveitin er þekkt fyrir seiðandi „acid“ tóna og heldur upp á eins árs afmæli sitt á laugardag.
Orang Volante nýtir áralanga reynslu sína fyrir dansgólfið og fangar eyru sem fætur með taktfastri hús- og teknótónlist.
Svo er það Kraftgalli en það er nýtt verkefni Arnljóts Sigurðssonar úr Ojbarasta sem á dögunum gaf út sitt fyrsta lag, Halló Fokking Húrra. Lagið kom út á safnskífu hjá þýska plötufyrirtækinu HFN Music.
Nánari upplýsingar er að finna á Facebook-síðu tónleikanna.