Innlent

Markaðsstofum tryggt stóraukið fé í fjárlögum

Sveinn Arnarsson skrifar
Markaðsstofurnar fá stóraukið fé.
Markaðsstofurnar fá stóraukið fé. vísir/stefán
„Rekstrarfé til Markaðsstofanna verður 91 milljón en ekki 80 eins og stendur í fjárlagafrumvarpinu nú. Annað stóð aldrei til og markaðsstofum landshlutanna því tryggt þetta fjármagn,“ segir Elías Gíslason ferðamálastjóri.

Fréttablaðið sagði frá því í gær að breyting hefði orðið í fjárlagafrumvarpi Bjarna Benediktssonar frá frumvarpi Benedikts Jóhannessonar á þá leið að fé til markaðsstofa landshlutanna í ferðaþjónustu færi úr 91 milljón niður í 80 milljónir. Ljóst er að þær breytingar eru ekki réttar og verður þessu kippt í liðinn fyrir aðra umræðu fjárlaga í þinginu.

„Það sem meira er, að þarna er verið að semja til þriggja ára svo markaðsstofurnar eru að fá um 160 milljónir króna árlega frá okkur og hinu opinbera þannig að hér er um verulega aukningu að ræða. Það fara allir glaðir frá borði og rekstrargrundvöllur markaðsstofanna styrkist verulega frá því sem nú er,“ segir Elías.

Markaðsstofur landshlutanna vinna náið með fyrirtækjum og sveitarfélögum í því að markaðssetja sín svæði sem ákjósanleg ferðaþjónustusvæði. Mikilvægt er að margra mati að auka veg ferðaþjónustunnar um allt land og dreifa ferðamönnum sem víðast til að nýta þær fjárfestingar sem til eru á landsbyggðinni til ferðaþjónustu. Því er hér um mikilvægt skref að ræða til að efla markaðsstofurnar enn frekar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×