Skoðun

Langþráður áfangi í þjónustu við fatlað fólk í augsýn

Ásmundur Einar Daðason skrifar
Aukið frelsi, betri möguleikar til að ráða lífi sínu, stóraukin tækifæri til sjálfstæðs lífs og til virkrar þátttöku í samfélaginu, þetta eru þau einkunnarorð sem fatlað fólk sem reynt hefur, gefur NPA-þjónustuforminu, þ.e. notendastýrðri persónulegri aðstoð.

Í ljósi þess hve NPA skiptir fatlað fólk miklu máli og hve lengi fólk hefur beðið þess að NPA verði hluti af sjálfsagðri þjónustu við fatlaða sem uppfylla skilyrði til að njóta hennar er það afar ánægjulegt fyrir mig að fyrstu frumvörp mín sem ráðherra félagsmála snúa einmitt að þessu.

Um nýliðna helgi lagði ég fram á Alþingi frumvarp til nýrra heildarlaga sem kveða á um þjónustu við fatlað fólk sem þarf á miklum stuðningi að halda og frumvarp um breytingu á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga. Gert er ráð fyrir að lögfesting NPA á grundvelli þessara frumvarpa geti tekið gildi um mitt næsta ár. Til að brúa bilið lagði ég einnig fram frumvörp sem eiga að tryggja að unnt verði að veita NPA-þjónustu á grundvelli samninga fram að gildistöku heildarlaganna. Áherslan á NPA birtist einnig í fjárlagafrumvarpinu þar sem framlög til þjónustunnar eru aukin um 70 milljónir króna sem gerir kleift að fjölga samningum úr 55 á þessu ári í 80 samninga árið 2018.

Þessi frumvörp eru nú komin til umfjöllunar í velferðarnefnd Alþingis. Þar er ég viss um að nefndarmenn taki höndum saman um að leiða þetta mikilvæga mál til lykta, hratt og örugglega í góðu samstarfi við helstu hagsmunaaðila og þvert á stjórnmálaflokka. Þetta er ekki aðeins mikilvægt hagsmunamál fatlaðs fólks, þetta er mál sem snýst um mannréttindi og að við sýnum í verki vilja okkar til að stuðla að jöfnum tækifærum fatlaðs fólks og ófatlaðra í samfélaginu eins og kostur er.

 

Höfundur er félags- og jafnréttismálaráðherra.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×