Erlent

Gene Simmons bassaleikari Kiss kærður fyrir kynferðislega áreitni

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Gene Simmons bassaleikari Kiss á tónleikum.
Gene Simmons bassaleikari Kiss á tónleikum. Mynd/Getty

Tónlistarvefurinn Pitchfork birti í dag frétt um að bandarísk útvarpskona hefði kært Gene Simmons, bassaleikara hljómsveitarinnar Kiss, fyrir kynferðislega áreitni. Þar kemur fram að kæran tengist atviki sem á að hafa átt sér stað þann 1. nóvember.



Konan kemur ekki fram undir nafni en hún lýsir því hvernig Simmons hafi gripið í hönd hennar og sett hana á hnéð á sér og snúið hefðbundnum viðtalsspurningum í kynferðislega tvíræðni. Á hann einnig að hafa káfað á afturenda hennar þegar myndir voru teknar af þeim eftir viðtalið.



Willie W. Williams lögfræðingur konunnar segir að hún hafi kært því hún vildi koma með sterka yfirlýsingu um að „svona hegðun er óásættanleg.“

Gene Simmons neitar þessum ásökunum og ætlar að svara þeim fullum hálsi.Vísir/Getty

Simmons neitar þessum ásökunum í tilkynningu sem hann sendi Pitchfork í dag. Þar segist hann ætla að berjast í þessu máli. „Ég áreitti ekki manneskjuna sem kemur fram með þessar ásakanir líkt og haldið er fram í kærunni og ég skaðaði hana ekki á nokkurn hátt.“



Ráðfærir hann sig nú við lögfræðinga sína og ætlar að svara konunni fullum hálsi. „Ég hlakka til þessa að málið fari fyrir dómstóla þar sem sönnunargögn munu sanna sakleysi mitt.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×