Lífið

Stöðugar framfarir með hækkandi aldri

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
"Um að gera að vinna meðan einhver vill nýta krafta manns,“ segir Einar Karl hress.
"Um að gera að vinna meðan einhver vill nýta krafta manns,“ segir Einar Karl hress. Vísir/Stefán
Þær segja það, dætur mínar og kona, að það sé eitthvert afmæli. – Þetta sem helst nú varast vann, varð þó að koma yfir hann – stendur einhvers staðar,“ segir Einar Karl Haraldsson, fyrsti ritstjóri Fréttablaðsins, þegar hann er minntur á sjötugsafmælið á morgun.

Hann þykist ekkert spenntur en hlakkar samt örugglega til enda segir hann þær mæðgur ætla að halda vinum hans og ættingjum svolítið hóf.

Það er í ýmis horn að líta hjá fjölskyldunni. Einar Karl kveðst þó laus við allt jólastress.

„Maður er orðinn aðallega í því að njóta aðventunnar í stað þess að tapa sér í stressi og neyslu. Það er nýi tíminn. En það er von á afastrák í heiminn sem verður bæði jóla- og afmælisstrákur þetta árið. Þetta er alltaf jafn spennandi og maður vonar bara það besta.“

Þótt Einar Karl sé ekki í föstu starfi hefur hann mörgu að sinna.

„Ég er fyrir löngu hættur að líta á líf mitt sem vinnu, heldur sem verkefni. Sum þeirra fæ ég borgað fyrir og önnur ekki. Ég hef rekið sjálfan mig sem fyrirtæki og fólk hefur leitað til mín. Meðan heilsan er góð reyni ég að vinna að þeim verkefnum sem heilla.

Þeir sem fara á eftirlaun hjá Tryggingastofnun verða strax óánægðir með að allt sé tekið af þeim. Ein leiðin til að verða ekki fúll yfir því er að fara ekkert á eftirlaun fyrr en maður neyðist til, sem er við 72 ára aldurinn. Því er um að gera að vinna meðan einhver vill nýta krafta manns.“

Eitt af því sem spennandi er framundan hjá Einari Karli er Ítalíuferð með leikfimiflokknum Drengjum Sóleyjar. „Þetta verður þriðja ferðin okkar á Gullaldarmót Evrópska fimleikasambandsins, við förum annað hvert ár og tökum stöðugum framförum með hækkandi aldri.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.