Skoðun

Mikilvægasta starf í heimi?

Skúli Helgason skrifar
Kennarar gegna einhverju þýðingarmesta hlutverki í þjóðfélaginu því þeir geta haft afdrifarík áhrif á framtíð þúsunda barna og ungmenna. Þessi mikla ábyrgð hefur þó ekki verið metin að verðleikum í okkar samfélagi. Ein alvarlegasta afleiðing þessa er að aðsókn í kennaranám hefur hrunið og er nú svo komið að einungis útskrifast innan við 50 kennarar á hverju ári frá Háskóla Íslands samanborið við rúmlega 200 á árunum 2009-2010. Ef ekkert verður að gert verður alvarlegur skortur á kennurum á Íslandi innan fárra ára. Þetta var ein kveikjan að stofnun starfshóps á vegum Reykjavíkurborgar þar sem fulltrúar kennara, skólastjóra, foreldra, o.fl. unnu saman að tillögum til að auka nýliðun og bæta starfsumhverfi kennara. Starfshópurinn hefur nú kynnt 31 tillögu að aðgerðum, sem tengjast bættu starfsumhverfi, breytingum á inntaki og skipulagi kennaranáms, aukinni nýliðun kennara og starfsþróun.

Bætt starfsumhverfi

Kennarar hafa kallað eftir betra aðgengi að sérfræðingum til að mæta auknu álagi í vinnu með nemendum. Starfshópurinn leggur til að fjölgað verði fagfólki sem starfi við hlið kennara og hefur þegar verið samþykkt að ráða hegðunarráðgjafa með sérhæfingu í atferlismótun og talmeinafræðinga í alla borgarhluta. Þá verða mótuð ný úrræði til að styðja við börn í fjölþættum vanda. Kennsluráðgjöf í upplýsingatækni verður efld og aukin ráðgjöf og stuðningur við nýja kennara í starfi. Meira fjármagn verður sett í endurbætur á húsnæði, bættan tölvukost kennara og nemenda. Þá þarf að auka svigrúm skólastjórnenda til að sinna hlutverki sem faglegir leiðtogar skólastarfsins.

Reykjavíkurborg hefur þegar samþykkt að verja 627 milljónum króna til að hrinda fyrstu tillögum starfshópsins í framkvæmd á næsta ári til viðbótar þeim ríflega 670 milljónum sem bættu stöðu grunnskólanna á þessu ári. Borgin mun ekki láta sitt eftir liggja til að auka veg kennara en mikilvægt er að ríki og sveitarfélög vinni saman að lausn vandans s.s. með víðtækri vitundarvakningu sem nái til alls samfélagsins og ívilnandi aðgerðum til að fjölga kennaranemum.

 

Höfundur er borgarfulltrúi Samfylkingarinnar og formaður skóla- og frístundaráðs.




Skoðun

Sjá meira


×