Jól

Jólatrén fimm þegar mest var

Ragnheiður Tryggvadóttir skrifar
"Ég taldi bollana fyrir stuttu, þeir eru 440 talsins.“ Ásrún Aðalsteinsdóttir, myndlistarkona og textílkennari, safnar að sér gömlum munum og skrauti. Myndir/Auðunn Níelsson
"Ég taldi bollana fyrir stuttu, þeir eru 440 talsins.“ Ásrún Aðalsteinsdóttir, myndlistarkona og textílkennari, safnar að sér gömlum munum og skrauti. Myndir/Auðunn Níelsson

Ásrún Aðalsteinsdóttir gengur alla leið í skreytingum um hver jól. Hún er komin í bann þegar velja á jólatré eftir að hífa þurfti tréð eitt árið inn um svalirnar. Hún safnar bollastellum og ýmsum gömlum munum og stillir upp litlum sviðsmyndum um allt hús. 

Nýlega var hluta bollasafnsins komið fyrir í upplýstum skápum í eldhúsinu. Antíkskrautið er innan um bollana.

Ég hef safnað postulínsbollum í mörg ár. Taldi þá um daginn og þeir eru 440. Ég safna líka antíkjólaskrauti og raða því innan um bollana í skápnum. Þetta er svo gaman. Ég á óhemjumikið af skrauti sem ég geymi í gömlum ferðatöskum og í kössum uppi á lofti,“ segir Ásrún Aðalsteinsdóttir, myndlistarkona og kennari á Akureyri. Ásrún skreytir duglega fyrir jólin og segist alltaf ganga „alla leið“, sé jafnvel með mörg jólatré.

„Engilinn á toppnum fengum við í jólagjöf og hættum þá að nota jólatréstoppa. Fólk fær stundum lánaða hjá mér toppa enda nóg til.“

„Einu sinni voru þau fimm. Við fengum tré úr skógrækt afa míns og í einni slíkri ferð var verið að grisja. Við enduðum með tvö stór og þrjú minni minni, sem fóru í herbergi dætranna. Þetta var ótrúlega skemmtilegt. Allt saman skreytt í topp, enda nóg skraut til,“ segir hún. Nú sé hún reyndar höfð heima þegar velja á tré. „Ég er komin í bann, ég vel alltaf svo stórt. Einu sinni þurfti að hífa tréð inn gegnum svalirnar og svo fyllti það nánast út í stofuna,“ segir hún sposk.

Gömul og jólaleg stytta inn á milli bolla.

Þegar Ásrún skreytir stillir hún upp litlum sviðsetningum um allt hús. Hún raðar saman skrauti úr ólíkum áttum og enginn ákveðinn stíll er ráðandi.

Dagatalið hefur fylgt Ásrúnu frá barnæsku

„Systir mín keypti til dæmis einhvern tímann í Ikea marga kassa af jólakúlum. Með þeim fylli ég alla dalla og helli líka ofan í kommóðu­skúffur. Skúffurnar standa svo bara opnar yfir jólin,“ segir hún. Antíkskrautinu sé þó valinn öruggari staður enda sé það í uppáhaldi.

„Á markaði rakst ég á alveg eins tré og til var á æskuheimilinu.“

„Ég á nokkrar kúlur frá því ég var krakki og aðeins af jóladóti. Ég á pappírsdagatal frá árinu 1961 sem ég fékk þegar ég var eins árs. Það fer upp um hver jól. Þá hékk glansmynd af amerískum jólasveini alltaf á ísskápnum á æskuheimilinu og hún fer alltaf upp á kæliskápinn hjá mér. Ég safna líka jólatréstoppum og á um 30 stykki. Ég skreyti með því að hrúga þeim í gamla skilvindu sem stendur uppi hjá okkur.

„Húsið fengum við frá fjölskyldu mannsins míns. Það er ofsalega fallegt. Við stillum því upp á ólíkum stöðum milli ára. Það væri hægt að bæta við og búa til heilt þorp en mér finnst það fallegt bara eitt og sér.“

Fólk fær stundum lánaða hjá mér jólatréstoppa. Ég er með allar klær úti eftir dóti og þræði markaði og búðir með notað dót. Ég var einu sinni svo heppin að finna á Hjálpræðishernum alveg eins tré og var til á æskuheimilinu, örugglega um 70 ára gamalt. Ég var ekki lengi að kaupa það og stilli því upp á stafla af gömlum sálmabókum. Skrautið kemur allt hvert úr sinni áttinni og er ekkert í neinum ákveðnum stíl. Ég blanda öllu saman, sem mér finnst fallegt og passar við mig. Ég er dálítið einráð í þessu.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×