Enski boltinn

Stóri Sam: Skil ekki hvernig Everton fékk svona mörg mörk á sig áður en ég kom

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Sam Allardyce og Gylfi Þór Sigurðsson í gær.
Sam Allardyce og Gylfi Þór Sigurðsson í gær.
Sam Allardyce, knattspyrnustjóri Everton, var eðlilega kátur með 1-0 sigur á Newcastle í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta en liðið er nú búið að innbyrða tíu stig af tólf mögulegum í síðustu fjórum leikjum.

Stóri Sam hefur heldur betur lagað varnarleik Everton-liðsins en það er aðeins búið að fá á sig eitt deildarmark í síðustu fjórum leikjum en í leiknum áður en hann kom fékk liðið á sig fjögur mörk í einum og sama leiknum á móti Southampton.

Baulað var á Allardyce þegar að hann gekk af velli á St. James's Park í gær en hann stýrði Newcastle áður og var ekki vinsæll.

„Það sem gerðist fyrir tíu árum skiptir mig engu máli. Það sem skiptir mig máli er Everton og frammistaða eins og þessi eftir erfiðan leik síðasta sunnudag. Vilji strákanna þeirra til að vinna þennan leik var mikill,“ sagði Allardyce við BBC en myndband af viðtalinu má finna hér.

„Ég skil ekki alveg hvernig Everton fékk á sig svona mörg mörk áður en ég kom hingað þegar að varnarmennirnir mínir geta varist eins og þeir gerðu í kvöld. Við erum aðeins búnir að fá á okkur eitt mark í fjórum deildarleikjum síðan að ég kom.“

„Þetta byggist á góðum varnarleik og í dag vorum við að senda boltann vel og komast inn á teiginn. Markið var fallegt og Rooney hefur ekki misst markanefið. Gylfi fékk svo góð færi en við unnum góðan 1-0 sigur,“ sagði Sam Allardyce.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×