Háttsettur embættismaður hjá Sameinuðu þjóðunum segist óttast að veik börn, sem bíða þess nú að verða flutt frá stríðshrjáðu hverfi í Damaskus í Sýrlandi, séu notuð sem skiptimynt í samningaviðræðum uppreisnarmanna og stjórnarhersins.
Jan Egeland, sérstakur erindreki í málefnum Sýrlands, telur að uppreisnarmenn hafi fallist á að láta menn hliðholla stjórnarhernum, sem verið hafa í haldi uppreisnarmanna úr haldi, í skiptum fyrir að koma börnunum undir læknishendur.
Tólf börn voru flutt úr hverfinu í gær auk fjögurra í fyrradag og búist er við að þrettán fái að fara í dag. Um fjögurhundruð þúsund manns búa í austurhluta Ghouta, sem er hverfi í miðborg Damaskus sem búið er að sprengja aftur á steinöld eftir fjögurra ára umsátur.
Algjört skeytingarleysi
Talið er að tólf prósent barna sem þar búa glími við alvarlega vannæringu. UNICEF, barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, segir að árásir á börn hafi stóraukist í stríðsátökum síðustu missera samanborið við síðustu áratugi og hafi nú náð skelfilegum nýjum hæðum.
Í nýrri skýrslu samtakanna segir að algert skeytingarleysi í garð barna ríki hjá hinum ýmsu stríðsaðilum víða um heim og að alþjóðalög sem verja eigi börn á stríðstímum séu að engu höfð. Framkvæmdastjóri Unicef, Manuel Fontaine, sagði í ræðu í gær að ráðist sé á börn á heimilum þeirra, í skólum og á leikvöllum.
Um leið og hann fordæmdi þessa þróun ákallaði deiluaðila um allan heim og sagði að grimmd í garð barna megi aldrei taka sem eðlilegum eða gefnum hlut.
