Innlent

Gul viðvörun í gildi fyrir Suðausturland

Ingvar Þór Björnsson skrifar
Hálka og hálkublettir eru á vegum víða um landið.
Hálka og hálkublettir eru á vegum víða um landið. Vísir/Vilhelm
Veðurstofan hefur gefið út gula viðvörun fyrir suðausturland en varað er við allhvassri eða hvassri norðanátt undir Vatnajökli framan af kvöldi og snörpum vindhviðum nærri fjöllum þar. Búist er við 13-20 metrum á sekúndu og skýjað með köflum, hvassast undir Vatnajökli. Það á að draga úr vindi í kvöld og nótt og gert er ráð fyrir 8-13 metrum á sekúndu á morgun.  

Í tilkynningu frá Vegagerðinni kemur fram að það er hálka eða hálkublettir víða á Suður- og Suðvesturlandi. Eins er hálka eða hálkublettir á flestum leiðum á Vesturlandi.

Á Vestfjörðum er hálka og snjóþekja og sums staðar skafrenningur og él. Þæfingsfærð og stórhríð er á Klettshálsi en ófært norður í Árneshrepp sem og yfir Hrafnseyrar- og Dynjandisheiðar.

Þá er hálka, hálkublettir eða snjóþekja á vegum á Norðurlandi og víða éljagangur austan Tröllaskaga. Þæfingsfærð er á Fljótsheiði.

Hálka, snjóþekja eða þæfingsfærð er á Austurlandi og versnandi veður og færð. Fjarðarheiði og Fagridalur eru lokuð og það er orðið ófært á Vatnsskarði eystra.  Óveður er í Hamarsfirði. Hálka og hálkublettir eru á Suðausturlandi og nokkuð hvasst.

Vegagerðin og Náttúrustofa Austurlands vara vegfarendur við umferð hreindýra á Austur- og Suðausturlandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×