Innlent

Hlíðarfjall, Bláfjöll og fleiri skíðasvæði opin í dag

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Frá skíðasvæðinu í Bláfjöllum.
Frá skíðasvæðinu í Bláfjöllum. Vísir/Daníel
Útlit er fyrir að margir munu renna sér í skíðabrekkum landsins í dag.

Opið er í Hlíðarfjalli í dag til klukkan 16. Í tilkynningu frá stjórnendum skíðasvæðisins er púðursnjór í fjallinu, skyggni þokkalegt og sex gráðu frost.

Einnig var opið í Hlíðarfjalli í gær og ákváðu um 400 manns að nýta sér það tækifæri og renna sér í brekkunum. Þetta var í fyrsta skipti sem Hlíðarfjall er opið á jóladag. Lokað var í fjallinu síðustu dagana fyrir jól vegna veðurs.

Stefán Gunnarsson svæðisstjóri í Hlíðarfjalli segir í samtali við Vísi að það séu núna í kringum 150 manns í fjallinu en svæðið opnaði klukkan 12. Hann segir að „ágætisveður“ sé á svæðinu og á von á því að í dag verði sennilega svipaður fjöldi í fjallinu og var þar í gær.

Einnig er opið á Ísafirði og Siglufirði. Á skíðasvæðinu Skarðsdal á Siglufirði er fjögurra stiga frost og „lítilsháttar éljagangur og skafrenningur. Færið er troðinn þurr snjór, það bætir á snjóinn hægt og býtandi þannig að það er orðið silkifæri,“ kemur fram á Facebook síðu skíðasvæðisins. Búið er að opna eðstu-lyftuna en er verið að skoða að opna T-lyftu en þar er töluvert blint.

Í Bláfjöllum er opið frá 12 til 16 og veðrið á svæðinu fínt. 

„Aðstæðurnar eru bara góðar.  Við ætluðum að vera með lokað en svo breyttist veðrið skyndilega og er bara fínasta veður. Við ákváðum því að fara í opnun með takmarkaðri þjónustu, við erum þó með leigu og veitingasölu. Við ákváðum að gefa bara frítt í lyfturnar í dag,“ segir Magnús Árnason framkvæmdastjóri Skíðasvæðanna í samtali við Vísi.  Magnús segir að veðrið sé fínt, vindhraðinn aðeins einn metri á sekúndu núna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×