Innlent

Björgunarsveitir leita að konu á áttræðisaldri í Bolungarvík

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Björgunarsveitir leita að konu í Bolungarvík en talið er að hún hafi farið úr heimahúsi í gærkvöldi eða í nótt.
Björgunarsveitir leita að konu í Bolungarvík en talið er að hún hafi farið úr heimahúsi í gærkvöldi eða í nótt. Vísir/Pjetur
Þrjár björgunarsveitir við Djúp á Vestfjörðum voru kallaðar út nú skömmu fyrir hádegi í leit að konu á áttræðisaldri sem talið er að sé týnd í eða við Bolungarvík. Konan er fædd er árið 1941. 

„Það er bara búið að kalla eiginlega allar björgunarsveitir við Djúp út eða þrjár sveitir í leit að konu sem er talið að sé týnd í eða við Bolungarvík,“ segir  Reimar Vilmundarson, er svæðisstjóri hjá Landsbjörgu.

Lögreglan á Ísafirði fer með rannsókn málsins og tekur þátt í leitinni með björgunarsveitunum. „Þetta er fullorðin kona sem talið er að hafi farið úr heimahúsi í gærkvöldi eða nótt og það er verið að hefja leit að henni,“ segir Reimar.

Nokkur útköll yfir hátíðirnar

Þá hafa björgunarsveitir Landsbjargar haft í nógu að snúast yfir hátíðarnar enda víða slæmt veður á landinu. Björgunarsveitarfólk var kallað út til að aðstoða fólk sem var í vanda statt í vonskuveðri á Fróðárheiði á tólfta tímanum á aðfangadagskvöld. Þrír bílar sátu fastir á heiðinni og þurfti fólkið að halda til í neyðarskýli þar til björgunarsveitir komu á staðinn.

Þá fóru fjórir björgunarsveitarmenn frá Björgunarsveitinni á Djúpavogi á tíunda tímanum í gærkvöldi, að kvöldi jóladags, að leita að ferðamönnum á Breiðdalsheiði. Ferðamennirnir, voru á tveimur bílum á leið sinni til Egilsstaða, urðu viðskila og ók annar bílinn um suðurfirðina en hinn stefndi upp á Breiðdalsheiðina. Ferðamennirnir fundust á Axarvegi fyrir ofan Berufjörð rétt fyrir ellefu, bíll þeirra sat þá fastur í snjó og hafði verið það í einhvern tíma.

Sjá einnig: Björgunarsveitarfólk aðstoðaði ferðamenn

Um svipað leyti voru tæplega 100 björgunarsveitarmenn á Suðvesturlandi að aðstoða lögregluna á Suðurnesjum við leit að ungum manni sem óttast var um. Maðurinn kom í leitirnar heill á húfi í Reykjanesbæ á ellefta tímanum í gærkvöldi.

Þá voru, á fimmta tímanum í gær, björgunarsveitir í Árnessýslu kallaðir út vegna slys í hlíðum Ingólfsfjalls. Ungur karlmaður hafði runnið til á ís og fallið í brattlendi.  Davíð Már Bjarnason, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, segir að mikill ís hafi verið á svæðinu og að óskað hafi verið eftir sérstökum fjallabjörgunarbúnaði í verkefnið.

„Það var mjög kalt sögðu menn sem voru á staðnum. Hann fellur þarna í hálku og hrasar og slasast þó nokkuð alvarlega og það var kölluð til þyrlan sem gat ekki athafnað sig í hlíðum fjallsins. Í endann fór það svo að björgunarsveitarfólk og sjúkraflutningamenn þurftu að bera manninn niður að þyrlunni og hann var svo fluttur á slysadeild,“ segir Davíð Már í samtali við fréttastofu. 

Hann segir að það hafi verið nokkuð rólegt hjá björgunarsveitum í nótt og í morgun. Hins vegar hafi útkallið borist á Vestfjörðum í morgun.


Tengdar fréttir

Ungur karlmaður í klandri á Ingólfsfjalli

Á fimmta tímanum í dag voru björgunarsveitir í Árnessýslu kallaðir út vegna slys í hlíðum Ingólfsfjalls. Ungur karlmaður hafði runnið til á ís og fallið í brattlendi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×