Innlent

Strekkingsvindur og éljagangur á aðfangadag

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Veður fer kólnandi um allt land næstu daga.
Veður fer kólnandi um allt land næstu daga. vísir/anton brink
Gert er ráð fyrir snjókomu sunnanlands seint í kvöld en veður fer kólnandi um allt land næstu daga, að því er segir á vef Veðurstofu Íslands. Aðfangadagur verður vindasamur.

Allhvass eða hvass vindur er norðvestantil á landinu í dag, Þorláksmessu. Þá verður víða snjókoma fyrir norðan en úrkomulítið sunnan heiða fram eftir degi. Seint í kvöld er þó búist við snjókomu sunnanlands.

Á morgun, aðfangadag, er gert ráð fyrir strekkingsvindi og éljagangi um allt land. Heldur hægari vindur verður á jóladag og léttskýjað syðra, en áfram él norðantil á landinu.

Sjá einnig: Betra að leggja snemma af stað ef förinni er heitið um norðanvert landið á Þorláksmessu

Þá er varað við hálku víða um land en hægt er að fylgjast með færð á vegum á vef vegagerðarinnar.

Veðurhorfur á landinu yfir jólin:



Á sunnudag (aðfangadagur jóla):

Norðaustanátt, víða 10-15 m/s og él. Frost 0 til 8 stig. 

Á mánudag (jóladagur):

Norðaustan 8-13 m/s og él á N-verðu landinu, en bjartviðri S-til. Frost 2 til 12 stig. 

Á þriðjudag (annar í jólum) og miðvikudag:

Ákveðin norðaustanátt. Éljagangur N- og A-lands, en léttskýjað með köflum á S- og V-landi. Áfram kalt í veðri. 

Á fimmtudag og föstudag:

Útlit fyrir svipað veður áfram.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×