Gullverðlaunahafinn frá ÓL, McKayla Maroney, er farin í mál við bandaríska fimleikasambandið þar sem það gekk langt til þess að fela að læknir landsliðsins, Larry Nassar, hefði misnotað hana kynferðislega.
Búið er að dæma Nassar í 60 ára fangelsi fyrir kynferðisbrot og enn á eftir að taka fyrir mál gegn honum. Hann mun aldrei sleppa úr fangelsi. Hann var lengi læknir bandaríska fimleikalandsliðsins og braut á mörgum bestu fimleikastjörnum Bandaríkjanna.
Seint á síðasta ári skrifaði Maroney undir samning við fimleikasambandið og fékk greiddar rúmar 130 milljónir króna fyrir að þegja um brot Nassar gegn henni.
Í október á þessu ári ákvað Maroney aftur á móti að rjúfa þögnina og greindi frá því á Twitter að Nassar hefði byrjað að brjóta gegn henni er hún var aðeins 13 ára gömul. Þar braut hún samning sinn við fimleikasambandið en lögfræðingur hennar óttast ekki að fimleikasambandið fari í mál við hana.
