Enski boltinn

Dramatískar lokamínútur tryggðu Bristol sigur á United

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Hörður Björgvin í baráttunni við Marcus Rashford
Hörður Björgvin í baráttunni við Marcus Rashford vísir/getty
Bristol City fer í undanúrslit enska deildarbikarsins eftir að hafa unnið meistara síðasta árs, Manchester United, í 8-liða úrslitunum. Chelsea fer með þeim í undanúrslitin eftir sigur á Bournemouth.

Sigrarnir verða varla dramatískari en á Ashton Gate í kvöld, en Korey Smith tryggði Bristol City sigurinn þegar uppbótartíminn var við það að renna út.

Áður hafði Joe Bryan komið heimamönnum yfir á 51. mínútu í leik sem var mjög opinn og fjörugur allt frá fyrsta flauti. Zlatan Ibrahimovic jafnaði fyrir United úr aukaspyrnu á 58. mínútu, fyrsta mark hans síðan hann snéri aftur til United.

Hörður Björgvin Magnússon var í byrjunarliði Bristol City en var tekinn af velli á 69. mínútu. Hörður átti marga fína spretti í leiknum og ógnaði Sergio Romero í marki United nokkrum sinnum.

Á Stamford Bridge byrjaði Chelsea leikinn mun betur og komst yfir með marki frá Willian snemma í fyrri hálfleik. Heimamenn voru sterkari aðilinn út hálfleikinn en náðu þó ekki að skora fleiri mörk.

Gestirnir í Bournemouth voru miklu sprækari eftir leikhléið, og Chelsea komst ekki almennilega inn í leikinn aftur fyrr en Eden Hazard og Alvaro Morata voru settir inn á.

Bournemouth náði þó ekki að gera sér mat úr færum sínum og allt leit út fyrir sigur Chelsea þegar Dan Gosling skoraði á síðustu mínútu venjulegs leiktíma og virtist tryggja Bournemouth framlengingu.

Varamenn Chelsea voru þó ekki á því og Morata tryggði Chelsea sæti í undanúrslitunum með marki tæpri mínútu eftir mark Bournemouth.

Í undanúrslitunum verða því Bristol City, Chelsea, Arsenal og Manchester City.




Fleiri fréttir

Sjá meira
×