Innlent

Barnafjölskyldur skiptast á fötum

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Markaðurinn mun vera haldinn reglulega í Gerðubergi næstu mánuði.
Markaðurinn mun vera haldinn reglulega í Gerðubergi næstu mánuði. Vísir/skjáskot
Hægt er að koma með barnaföt sem eru orðin of lítil og skipta þeim í næstu stærð á skiptifatamarkaði Rauða krossins í Breiðholti. Þannig er hægt að nýta fötin betur og vonast er til að markaðurinn komi sér vel fyrir barnafólk sem hefur ekki mikið á milli handanna.

Um helgina var skiptifatamarkaðurinn haldinn í fyrsta skipti í Gerðubergi í Breiðholti en hann verður haldinn reglulega næstu mánuði.

Rauði krossinn í Reykjavík og Fjölskyldumiðstöð Breiðholts standa að markaðnum og þennan fyrsta dag kom á annað hundrað manns til að skipta á fötum. Ljóst er að það kom mörgum vel að endurnýja fataskáp barna sinna.

„Það er náttúrulega líka nauðsynlegt að nýta fötin betur en við erum að gera. Barnafólk hefur kannski ekki of mikið á milli handanna. Þá er um að gera að koma með föt sem börnin eru vaxin upp úr og fá sér næsta númer fyrir ofan," segir Þuríður Sigurðardóttir, verkefnastjóri Fjölskyldumiðstöðvar Breiðholts.

Sjálfboðaliðar sjá um að setja upp markaðinn, taka við fötum og flokka þau eftir stærðum. Fólk kemur með gömul föt, þau eru talin og svo fær fólk að velja sér jafn margar flíkur af markaðnum.

Næstu markaðsdagar verða auglýstir á næstunni á Facebook-síðu Rauða krossins í Reykjavík. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×