Erlent

Höfðar meiðyrðamál vegna frétta þess efnis að hann væri orðinn kona

Birgir Olgeirsson skrifar
Richard Simmons er ekki sáttur við National Enquirer.
Richard Simmons er ekki sáttur við National Enquirer. Vísir/Getty
Fyrrverandi líkamsræktarfrömuðurinn Richard Simmons hefur höfðað meiðyrðamál gegn fjölmiðlunum National Enquirer og Radar Online. Simmons sakar þá um að nota fjárkúgara sem heimildarmann frétta þess efnis að hann væri í kynleiðréttingarferli.

Í stefnunni heldur Simmons því fram að hann hafi til fjölda ára verið áreittur af fyrrum aðstoðarmanni sínum og vini, Mauro Oliveira. Í stefnunni er Oliveira sagður hafa gefið National Enquirer þrjár mismunandi útskýringar á því af hverju Simmons dró sig úr sviðsljósinu árið 2014.

Í maí í fyrra á Oliveira að hafa sagt Enquirer að Simmons væri í kynleiðréttingarferli. Í júní í fyrra birtist frétt í Enquirer þar sem því var haldið fram að Simmons héti nú Fiona. Talsmenn Simmons höfðu hafnað þessari fullyrðingu í samtali við Enquirer.

Radar Online tók þessa frétt upp og vitnaði í Enquirer og var vitnað í hana í hlaðvarpsþættinum: Missing Richard Simmons.

Í stefnunni kemur fram að Simmons hafi verið neyddur til að að velja á milli þess að segja ekkert um þessa frétt og gangast þannig við henni með þögn sinni, eða að stefna fjölmiðlunum og gefa þannig í skyn að það sé eitthvað kynleiðréttingu.

Í stefnunni er tekið fram að Simmons styðji ákvarðanir allra einstaklinga, hvað sem þeir velja að gera, þegar kemur að kynvitund þeirra.

Simmons segist hafa ákveðið að höfða meiðyrðamál því hann hafi lagalegan rétt á því að ekki sé dregin upp röng mynd af honum sem manneskju.

Lögmaður Simmons hafði varað Enquirer við því að ef þessi frétt yrði birt myndi það gera Simmons afar erfitt fyrir að snúa aftur í sviðsljósið, sem myndi þýða tekjutap upp á margar milljónir dollara fyrir hann.

Lögmaður Simmons tók það skýrt fram í bréfi til Enquirer að Simmons væri ekki kona og að hann hafi ekki farið í gegnum nokkurskonar ferli til að láta breyta sér úr karli í konu.

Enquirer svaraði þessu bréfi á vef sínum þess efnis að um væri að ræða réttmæta frétt sem kallaði á umfjöllun og að fjölmiðillinn myndi verjast þessari stefnu Simmons.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×