Þrír voru fluttir á slysadeild eftir áreksturinn.Vísir/Eyþór
Búið er að opna fyrir umferð um hringveginn í Öxnadal eftir harðan tveggja bíla árekstur á fimmta tímanum í dag. Vegurinn hefur aðeins verið opnaður í litlum mæli og má því búast við einhverjum töfum næsta klukkutímann, að því er segir í tilkynningu frá lögreglu.
Um var að ræða tveggja bíla árekstur á Norðurlandsvegi við Hóla í Öxnadal. Þrír voru fluttir á slysadeild Sjúkrahússins á Akureyri en lögregla segist ekki geta veitt upplýsingar um meiðsl þeirra að svo stöddu.
Veginum var lokað eftir slysið og umferð beint um Siglufjarðarleiðina. Vettvangsrannsókn er í gangi og biður lögregla fólk um að sýna þolinmæði.