Innlent

Hálfur milljarður í verktakagreiðslur RÚV í fyrra

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Verktakar hjá RÚV skipta hundruðum á hverju ári. Verktakasamningar hjá stofnuninni hafa verið gagnrýndir nokkuð.
Verktakar hjá RÚV skipta hundruðum á hverju ári. Verktakasamningar hjá stofnuninni hafa verið gagnrýndir nokkuð. vísir/pjetur
Mennta- og menningarmálaráðherra hefur svarað fyrirspurn Kolbeins Óttarssonar Proppé, þingmanns Vinstri grænna, um starfsmannahald RÚV. Kolbeinn hafði áhyggjur af því að verktökum hjá RÚV væri að fjölga. Í svari ráðherra kemur fram að verktakagreiðslur RÚV árið 2016 námu hálfum milljarði króna.

Fréttablaðið greindi frá því í byrjun mánaðar að Kolbeinn hefði sent mennta- og menningarmálaráðherra fyrirspurn um fjölda starfsmanna á verktakasamningi við RÚV. Ástæður að baki fyrirspurninni voru áhyggjur Óttars af stöðu verktaka hjá Ríkisútvarpinu.

„Maður hefur heyrt það að verktakar séu í auknum mæli að sinna starfinu og ekki bara að taka þátt og þátt, heldur séu að sinna fullri starfsskyldu en séu ekki fastráðnir starfsmenn heldur verktakar,“ sagði Kolbeinn í samtali við Fréttablaðið þann 1. júní síðastliðinn.

Kostnaður við verktakagreiðslur nam hálfum milljarði króna

Í svari Kristjáns Þórs Júlíussonar, mennta- og menningarmálaráðherra, kemur fram að fyrstu upplýsingar um efni fyrirspurnar hafi borist frá Ríkisútvarpinu 11. apríl síðastliðinn en þær hafi ekki verið fullnægjandi. Því var ítrekað óskað eftir frekari upplýsingum sem bárust loks 31. maí.

Kostnaður RÚV vegna verktakagreiðslna er sundurliðaður eftir sviðum í svari ráðherra. Þar kemur fram að RÚV greiddi verktökum samtals 499,8 milljónir króna árið 2016 eða rétt tæpan hálfan milljarð. Stærstur hluti verktakagreiðslanna er á sjónvarpssviði eða 284 milljónir króna.

Þá kemur fram að kostnaðurinn hafi verið stöðugur undanfarin ár og er um 25% af heildarlaunakostnaði. Stöðugildum hjá Ríkisútvarpinu hefur jafnframt fækkað en þau eru nú 258 samanborið við 324 árið 2008.

Einn liður í fyrirspurn Kolbeins varðaði þá verktaka sem starfa hjá RÚV vikulega eða oftar. Í bókhaldi Ríkisútvarpsins var ekki hægt að draga út upplýsingar fyrir allt tímabilið sem beðið er um í fyrirspurninni en í apríl síðastliðnum voru „66 verktakar sem komu að þáttagerð vikulega eða oftar.“

Þá kemur fram í svari ráðherra að eðli málsins samkvæmt séu árstíðasveiflur í fjölda og kostnaði við verktaka á hverju sviði. Verkefni þeirra verktaka sem vinna fyrir Ríkisútvarpið eru einnig afar mismunandi.


Tengdar fréttir

Fjórðungur kostnaðar launa vegna verktaka

Hlutfall kostnaðar RÚV vegna verktaka hefur verið stöðugt undanfarin ár. Fjöldi verktaka sem vinna þar hleypur á hundruðum á hverju ári. Aðstoðarframkvæmdastjóri ASÍ telur að hlutfallið sé hátt miðað við eðli starfseminnar.

Hefur áhyggjur af réttindum starfsmanna Ríkisútvarpsins

Þingmann VG grunar að verktökum hjá RÚV hafi fjölgað undanfarið. Nauðsynlegt sé að ríkið sýni gott fordæmi á vinnumarkaði. Menntamálaráðuneytið hefur ítrekað spurst fyrir um málið án þess að fá svör.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×