Rannsókn lögreglu á nauðgun og líkamsárás í Vestmannaeyjum er lokið og málið nú komið í ákæruferli hjá ákærusviði lögreglunnar. Þetta staðfestir Páley Borgþórsdóttir, lögreglustjóri í Vestmannaeyjum, í samtali við fréttastofu Ríkisútvarpsins.
Vísir greindi frá því í september síðastliðnum að rannsókn lögreglunnar á málinu, sem var tilkynnt til lögreglu í september í fyrra, væri á lokastigi. Tryggvi Ólafsson, lögreglufulltrúi í Eyjum, sagði við Vísi að erfitt hefði reynst að ná tali af konunni vegna rannsóknar málsins þar sem hún flutti erlendis.
Á annan tug vitna var yfirheyrður vegna málsins og þá voru lífsýni úr fatnaði send í lífsýnarannsókn.
Málið kom upp þann 17. september í fyrra en konan fannst snemma um morguninn úti á götu í Eyjum nakin og með mikla áverka á höfði. Maðurinn sem grunaður er í málinu sat í gæsluvarðhaldi í um tíu daga vegna þess.
