Fótbolti

Bale: Enska deildin þarf vetrarfrí

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Gareth Bale elskar að fara í smá jólafrí.
Gareth Bale elskar að fara í smá jólafrí. vísir/getty
Gareth Bale, framherji Evrópumeistara Real Madrid, er harður á því að spænsk lið eru með forskot á ensk vegna þess að ekkert vetrarfrí er í enska boltanum.

Þessi umræða hefur verið í gangi lengi en á meðan aðrar stærstu deildir Evrópu gefa sínum leikmönnum frí um jól og áramót og eitthvað inn á nýtt ár er spilað þétt á Englandi.

Bale er hefur lyft Evrópumeistaratitlinum í tvígang með Real Madrid eftir að ganga í raðir spænska félagsins frá Tottenham árið 2013 og sá þriðji gæti bæst í safnið í vor.

Spænsk lið hafa unnið Meistaradeildina síðustu þrjú skipti og á sama tíma vann Sevilla Evrópudeildina þrjú ár í röð. Nú er staðan þannig að Manchester City er eina liðið í forystu í sínu einvígi fyrir leikina í 16 liða úrslitum.

„Maður þarf að spila hvern einasta leik af 100 prósent krafti í ensku úrvalsdeildinni annars tapar maður. Á Spáni getur maður slegið af gegn botnliðinu ef maður er yfir í hálfleik. Það er hægt að hvíla leikmenn og taka þá af velli ef maður reynir á sig í 45 mínútur á Spáni en þannig vinnur þú ekki leik á Englandi,“ segir Bale.

„Augljóslega skiptir vetrarfríið miklu máli. Ensku liðin eru að spila fjóra til fimm leiki um jólin en við engan. Maður fær enga hvíld á Englandi og leikmenn brenna fyrr út. Það var gott að losna frá þessu, bæði andlega og líkamlega. Spænsk lið eru svo sannarlega með forskot á þau ensku,“ segir Gareth Bale.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×