Erlent

Segir Paddock hafa verið sjúkan

Samúel Karl Ólason skrifar
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna.
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna. Vísir/Getty
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, gaf í skyn í dag að hann myndi hefja umræðu um lög Bandaríkjanna varðandi byssueign. Það verði gert seinna meir. Minnst 59 eru látnir og rúmlega 500 særðir eftir að 64 ára maður hóf skothríð á um tuttugu þúsund tónleikagesti í Las Vegas aðfaranótt mánudagsins.

Trump sagði ljóst að Stephen Paddock hefði verið „sjúkur“ og hefði átt við geðræn vandamál að stríða.

„Mörg vandamál, held ég, og við erum að skoða það mjög, mjög alvarlega,“ sagði Trump við blaðamenn á leið til Puerto Rico samkvæmt Sky News.



Rannsakendur hafa ekki fundið svör við spurningum um tilefni árásarinnar og engin tengsl á milli Paddock og Íslamska ríkisins hafa fundist. ISIS hefur lýst yfir ábyrgð á árásinni og segir Paddock hafa verið vígamann samtakanna.

Byssulöggjöf óviðeigandi

„Það sem gerðist í Las Vegas var að mörgu leyti kraftaverk. Lögreglan hefur unnið svo frábært starf og við munum tala um byssulöggjöf seinna,“ sagði Trump einnig við blaðamenn.

Í gær vildu talsmenn Hvíta hússins ekki svara spurningum um byssulöggjöf Bandaríkjanna. Þess í stað sagði Sarah Huckabee Sanders að það væri óviðeigandi að tala um stjórnmál og stefnumál að svo stöddu. Dagurinn væri til þess að syrgja. Skömmu seinna sagði hún hins vegar að byssulöggjöfin í Chicago væri sú strangasta í ríkinu og þar hefðu rúmlega fjögur þúsund manns fallið fyrir byssum í fyrra.

Einn blaðamaður benti Sanders þó á það að eftir árásina í Orlando í fyrra, sem framin var af múslima, hefði forsetinn verið mættur á Twitter þann sama dag til að tala um „múslima-bannið“ sitt svokallaða.



Þingmenn Demókrataflokksins hafa kallað eftir hertri löggjöf í kjölfar árásarinnar og beitt samstarfsmenn sína úr Repúblikanaflokknum þrýstingi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×