Evrópskir kosningaeftirlitsmenn segjast ekki hafa séð neinar vísbendingar um að niðurstöðum forsetakosninganna í Kenía hafi verið hagrætt eins og frambjóðandi stjórnarandstöðunnar fullyrti í gær.
Yfirmaður kjörstjórnar Kenía hafnaði fullyrðingum Rail Odinga, leiðtoga stjórnarandstöðunnar, um að tölvuþrjótar hefðu breytt talningu atkvæða og gefið Uhuru Kenyatta forseta forskot í gær. Kenyatta hafði nokkuð öruggan sigur í kosningunum.
Mótmæli brutust út í gær í höfuðvígum stjórnarandstöðunnar í höfuðborginni Naíróbí og Kisumum í vesturhluta landsins. Að sögn Reuters-fréttastofunnar skutu lögreglumenn að minnsta kosti þrjá mótmælendur til bana og mótmælendur bönuðu þeim fjórða.
Marietje Schaake, aðalkosningaeftirlitsmaður Evrópusambandsins í Kenía, segir engin merki um miðstýrða eða staðbundna hagræðingu á kosningunum. Lokaskýrsla hennar muni fara yfir talningarferlið í kosningunum, að sögn Reuters.
Deilurnar nú vekja upp slæmar minningar hjá Keníamönnum en 1.100 mannst létust í óöld eftir umdeildar kosningar árið 2007 og hundruð þúsunda þurftu að flýja heimili sin.
Engar vísbendingar um svik í kosningunum í Kenía
Tengdar fréttir
Mótmæli eftir ásakanir um kosningasvindl
Mótmæli og óeirðir brutust út í Kenía í dag eftir að leiðtogi stjórnarandstöðunnar sagði að átt hefði verið við niðurstöður forsetakosninganna þar í landi.
Stjórnarandstaðan í Kenía fullyrðir að brögð hafi verið í tafli
Forsetaframbjóðandi kenísku stjórnarandstöðunnar fullyrðir að tölvuþrjótar hafi brotist inn í tölvukerfi kjörstjórnar og hagrætt úrslitum. Talning bendir til þess að sitjandi forseti landsins hafi unnið öruggan sigur.