Saipov hefur nú verið ákærður fyrir ódæðið sem og fyrir að hafa stutt við Íslamska ríkið með margvíslegum hætti, svo sem með upplýsingagjöf.
Lögreglumenn skutu Saipov sem særðist lítillega og hefur hann legið á sjúkrahúsi síðan. Að sögn saksóknara hefur hann verið samvinnuþýður og gefið greinargóða lýsingu á þankagangi sínum og framvindunni.
Sjá einnig: Sayfullo Saipov: Kom til Bandaríkjanna 2010 og starfaði hjá Uber
Donald Trump tísti í gær að réttast væri að Saipov fengi dauðadóm fyrir brot sín. Dauðarefsingar eru bannaðar í New York-ríki en alríkið getur krafist þess að litið verði hjá banninu við dómsúrskurðinn.
NYC terrorist was happy as he asked to hang ISIS flag in his hospital room. He killed 8 people, badly injured 12. SHOULD GET DEATH PENALTY!
— Donald J. Trump (@realDonaldTrump) November 2, 2017
Rúmlega 90 ofbeldisfull áróðursmyndbönd frá ISIS fundust á síma Saipov og segist hann hafa fengið innblástur frá leiðtoga samtakanna, Abu Bakr al-Baghdadi, sem hafi ítrekað spurt múslima hvernig þeir hyggist hefna fyrir morð Bandaríkjamanna í Írak.
Lögreglan í New York segir Saipov hafa fylgt fyrirmælum Íslamska ríkisins til hins ýtrasta. Hafi samtökin ítrekað sent frá sér leiðbeiningar til fylgismanna sinna um hvernig skuli framkvæma árásir sem þessar þannig að sem mestur skaði hljótist af.