Enski boltinn

Jason Burt: Swansea gæti ekki verið án Gylfa

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson.
Gylfi Þór Sigurðsson. Vísir/Getty
Jason Burt, virtur fótboltablaðamaður hjá Daily Telegraph, talar afar vel um íslenska landsliðsmanninn Gylfa Þór Sigurðsson í útvarpsviðtali á BBC. Burt lítur svo að Gylfi sé algjör örlagavaldur fyrir lið Swansea City.

Gylfi hefur farið fyrir góðu gengi Swansea-liðsins að undanförnu en liðið hefur unnið fjóra af síðustu sex leikjum sínum. Gylfi er nú komið með átta mörk og átta stoðsendingar á tímabilinu.

„Ég horfi á leikmenn með það til hliðsjónar hvaða áhrif þeir hafa á sín lið. Þegar ég horfi á Swansea þá sé Gylfa sem leikmann sem þeir gætu ekki verið án,“ sagði Jason Burt.

„Öll lið hafa einn leikmann sem þau mega bara ekki missa. Swansea hefur Gylfa eins og Liverpool hefur Sadio Mane. Liðin eru ekki þau sömu án þeirra,“ sagði Jason Burt.

„Ég held að Swansea-liðið gæti ekki bjargað sér án Gylfa og félagið lítur að berjast til að halda honum með kjafti og klóm,“ sagði Burt.

Gylfi átti þátt í báðum mörkum Swansea City í 2-0 sigri á Leicester City í gær. Fyrra markið kom eftir aukaspyrnu hans og það seinna eftir frábæra og frumlega stoðsendingu inn fyrir á hlaup bakvarðarins Martin Olsson.

„Tottenham tókst ekki að finna hlutverk handa Gylfa og kannski var þetta ekki rétta skrefið fyrir hann á þeim tímapunkti. Ég veit hinsvegar af því, eftir að hafa talað við fólk hjá Tottenham, að menn þar á bæ sjái eftir Gylfa því þeir töldu að hann væri mjög góður leikmaður,“ sagði Jason Burt.

„Gylfi er mjög mikilvægur leikmaður og hann er mjög góður úrvalsdeildarleikmaður,“ sagði Burt. Það er hægt að hlusta á viðtalið við hann með því að smella hér.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×