Enski boltinn

Antonio Conte ætlar ekki að ganga í gildru Jose Mourinho

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Antonio Conte og Jose Mourinho.
Antonio Conte og Jose Mourinho. Vísir/Getty
Antonio Conte, knattspyrnustjóri Chelsea, hefur næga ástæðu til að brosa þessa daganna þar sem Chelsea-liðið er með tíu stiga forystu á toppi ensku úrvalsdeildarinnar en Ítalinn brosti ekki þegar hann frétti af „gríni“ Jose Mourinho, knattspyrnustjóra Manchester United.

Jose Mourinho er fyrir löngu orðinn þekktur fyrir það að reyna að stunda sálfræðihernað gegn öðrum stjórum í bestu liðum deildarinnar.

Mourinho sagði að Chelsea-liðið myndi aldrei misstíga sig og missa niður forystuna því þeir vinni leiki sína með skyndisóknum. Það eina broslega við þetta var kannski að þetta var haft eftir Mourinho sem hefur oftar en ekki beitt varnarsinnuðum leikaðferðum sjálfur.  

Antonio Conte var þó ekki hrifinn  og hann tjáði sig um þetta eftir 1-1 jafnteflið á móti Burnley í gær.  BBC sagði frá.

„Hann er bara að grínast. Ég hef reynsluna til að átta mig á því,“ sagði Antonio Conte þegar hann var spurður út í ummæli Jose Mourinho.

Jose Mourinho lét þessi orð falla eftir 2-0 sigur á Watford en United-liðið hefur nú leikið sextán deildarleiki í röð án þes að tapa. Manchester United í sjötta sæti í töflunni, tólf stigum á eftir toppliði Chelsea.

Antonio Conte er ekki sá eini sem Mourinho hefur reynt að rugla í með ummælum sínum. Knattspyrnustjórar eins og Arsene Wenger og Sir Alex Ferguson fengu góðan skammt af Mourinho-sálfræði á sínum tíma.

Conte ætlar hinsvegar ekki að láta bjóða sér upp í dans. „Ég er ekki hrifinn af því að svara öðrum knattspyrnustjórum,“ sagði Antonio Conte skynsamur að vanda.  Hann ætlar ekki að ganga í gildru Jose Mourinho.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×