Handbolti

Aron: Spiluðum ekki mörg kerfi

Elías Orri Njarðarson skrifar
Aron brýst í gegnum vörn Úkraínu.
Aron brýst í gegnum vörn Úkraínu. vísir/anton
Aron Pálmarsson átti flottan leik fyrir íslenska landsliðið í sigrinum á Úkraínu í Laugardalshöll í kvöld.

„Þetta er mikill léttir, auðvitað er ég ánægður með að við séum á leiðinni á EM en ég er gríðarlega ánægður með hversu vel við spiluðum,“ sagði Aron brattur eftir leik.

„Við settum leikinn vel upp og vorum kannski ekki alltaf að spila mörg kerfi. Þetta var mjög mikið það sama sem að við vorum að spila, það gekk svo vel upp og þá náttúrlega breytir maður ekki. Allar aðgerðir voru bara allt aðrar heldur en í Tékklandi, við þurfum bara að koma okkur alltaf inn í þetta „zone “ - bara alltaf.“

Leikurinn í kvöld var mjög mikilvægur fyrir landsliðið enda þurftu þeir nauðsynlega að sigra leikinn til þess að tryggja sér sæti á EM í Króatíu í janúar.

Liðið var samstillt í kvöld, vörn og markvarsla var frábær í leiknum en aðspurður hvort að menn hafi undirbúið sig öðruvísi fyrir þennan leik heldur en einhvern annan landsleik segir Aron svo ekki vera.

„Nei svo sem ekki, þetta er aðalega andlegt sem við vorum að tala um fyrir leik. Það sást alveg í Tékklandi að það var einhver deyfð yfir þessu. Við fókuseruðum á það að allt það sem við gerum á hverri stundu, að við gerum það 100%, hvort sem að það er ákvarðanataka, stela boltanum eða blokka í vörn. Þú hugsar bara með þér að þú ert bara að fara að blokka hann, þú ert að fara að taka besta skot sem þú hefur tekið. Það eru þessir litlu hlutir og þegar þeir komast í undirmeðvitundinna þá kemur þetta,“ sagði Aron.

„Við vorum að fókusa á þetta svolítið og það skilar sér í betri leik. Þú mætir ákveðnari og ég held að menn hafi bara tekið það svolítið til sín. Ég er gríðarlega ánægður með það, það var gífurlegur kraftur í liðinu.“


Tengdar fréttir

Guðjón Valur: Ekki hægt að fara á betri hátt í frí

Guðjón Valur Sigurðsson, fyrirliði íslenska landsliðsins í handbolta, var að vonum mjög ánægður með flottan átta marka sigur á Úkraínu, 34-26, í Laugardalshöll í kvöld. Þungu fargi var létt af landsliðsfyrirliðanum eftir leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×