Innlent

Pasi Sahlberg ráðinn ráðgjafi við mótun nýrrar menntastefnu borgarinnar

Atli Ísleifsson skrifar
Pasi Sahlberg.
Pasi Sahlberg. Mynd/Reykjavíkurborg
Borgarstjórn samþykkti í dag að hefja vinnu við mótun menntastefnu í skóla- og frístundastarfi Reykjavíkurborgar fram til ársins 2030.

Í frétt á vef borgarinnar segir að skipaður hafi verið þverpólitískur stýrihópur auk verkefnastjórnar. Í henni sitja fulltrúar skóla- og frístundasviðs og teymi innlendra og erlendra ráðgjafa undir forystu finnska fræðimannsins Pasi Sahlberg.

„Hann hefur starfað sem ráðgjafi stjórnvalda austan hafs og vestan, en fáir fræðimenn hafa fjallað jafn mikið um uppbyggingu skilvirkra menntakerfa og Pasi Sahlberg.“

Í tillögu borgarstjórnar segir að stefnt skuli að því að samþykkja nýja menntastefnu Reykjavíkurborgar til 2030 um miðjan nóvember á þessu ári.

„Stefnan verður unnin í nánu samstarfi við hagsmunaaðila; starfsfólk, foreldra, nemendur og stjórnendur skóla- og frístundastarfs svo og með aðkomu innlendra og erlendra sérfræðinga. Markmiðið er að ná breiðri samstöðu um mikilvægustu markmið til lengri og skemmri tíma og brýnustu aðgerðir í menntamálum með áherslu á hag barna og ungmenna í reykvísku skólasamfélagi,“ segir í fréttinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×