Fótbolti

Freyr harðorður: Elín Metta ber enga ábyrgð á þessu

Kolbeinn Tumi Daðason í Tilburg skrifar
Frakkar fagna sigurmarki sínu en Harpa Þorsteinsdóttir (til hægri) reynir að hughreysta Elínu Mettu Jensen.
Frakkar fagna sigurmarki sínu en Harpa Þorsteinsdóttir (til hægri) reynir að hughreysta Elínu Mettu Jensen. Vísir/Getty
Sigurmark Frakka í leiknum gegn Íslandi á Evrópumótinu í Tilburg í kvöld kom úr vítaspyrnu sem dæmd var á 86. mínútu. Amandine Henry féll til jarðar eftir viðskipti við Elínu Mettu Jensen. Dómarinn benti strax á punktinn og Eugénie Le Sommer skoraði úr spyrnunni.

Landsliðsþjálfarinn Freyr Alexandersson var afar ósáttur við dóminn í viðtali við fjölmiðla eftir leik.

„Ég get sagt þér það, ef það er hægt að dæma á þetta þarftu að dæma tuttugu vítaspyrnur í leik,“ sagði Freyr.

„Ég vil eiginlega ekki segja meira. Þetta er rosalega stór ákvörðun. Við viljum ekki að dómarar séu að ráða úrslitunum, taka stórar ákvarðanir sem þessar. Það kom mér gríðarlega á óvart að hún skildi leyfa sér að flauta í flautuna.“

Elín Metta var nýkomin inn á sem varamaður þegar hún var dæmd brotleg innan teigs. Elín Metta var ekki til viðtals eins og aðrir leikmenn íslenska liðsins.

„Hún er ekki skúrkurinn. Það kemur ekki til greina. Ég skal frekar vera skúrkurinn. Þetta er bull. Dómarinn sem dæmdi þetta víti hefur aldrei dæmt víti á þetta,“ sagði Freyr og var ekki skemmt.

„Þetta er ekki hægt. Þetta er rugl og ekkert annað. Elín Metta ber enga ábyrgð á þessu.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×