Innlent

Eins og hálfs árs fangelsi fyrir líkamsárás, brot gegn valdstjórn og eignaspjöll

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Hæstiréttur þyngdi dóm Héraðsdóms Reykjavíkur.
Hæstiréttur þyngdi dóm Héraðsdóms Reykjavíkur. vísir/gva
Hæstiréttur dæmdi í dag karlmann á fertugsaldri í átján mánaða fangelsi fyrir líkamsárás, brot gegn valdstjórninni og eignaspjöll. Maðurinn hafði í Héraðsdómi Reykjavíkur verið dæmdur í fjórtán mánaða fangelsi.

Maðurinn var ákærður fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás en honum var gefið að sök að hafa slegið mann í andlitið með kylfu, þar sem þeir voru við Fiskislóð í vesturbæ Reykjavíkur í september 2015.

Þá var hann sakaður um að hafa veist að starfsmanni verslunar í Reykjavík í júlí 2015, slegið hann ítrekað í höfuð og líkama og tekið hann hálstaki. Jafnframt var hann sakfelldur fyrir brot gegn valdstjórninni með því að hafa veist að varðstjóra í fangageymslu á lögreglustöðinni við Hverfisgötu.

Maðurinn var einnig dæmdur fyrir þjófnað en hann stal rúmfötum úr verslun í Reykjavík, tók svo lampa í búðinni og kastaði honum í rúðu með þeim afleiðingum að rúðan og lampinn eyðilögðust. Braut hann jafnframt rúðu í bíl sem stóð við Bríetartún í Reykjavík, sem og rúðu í skartgripaverslun, ásamt því sem hann stal farsíma og ipad.

Maðurinn vildi ekki ekki tjá sig um sakargiftir fyrir dómunum og vildi ekki horfa á upptökur úr eftirlitskerfum. Sagði hann þær enga þýðingu hafa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×