Erlent

Gare du Nord í París rýmd af lögreglu

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Gare Du Nord í París er ein fjölfarnasta lestarstöð Evrópu.
Gare Du Nord í París er ein fjölfarnasta lestarstöð Evrópu. vísir/epa
Gare du Nord lestarstöðinni í París í Frakklandi var lokað í um tvær klukkustundir í nótt vegna lögregluaðgerða. Stöðin, sem er ein sú fjölfarnasta í Evrópu, var rýmd laust fyrir miðnætti að staðartíma og hefur lögregla engar upplýsingar gefið um ástæðu aðgerðanna.

Le Parisien hefur eftir heimildum að leitað þriggja manna sem sagðir eru hættulegir og nýkomnir til landsins. Þeirra hafi fyrst og fremst verið leitað um borð í lest frá Valenciennes í Norður-Frakklandi. Þá segja franskir miðlar að lögregla hafi áður farið í aðgerðir vegna þessra manna; í Bordeaux og Marseille, en ekki haft erindi sem erfiði.

Neyðarlög hafa verið í gildi í París allt frá árásunum á Bataclan skemmtistaðinn og nærliggjandi kaffihús árið 2015. Öryggisgæsla hafði sömuleiðis verið efld enn frekar fyrir forsetakosningarnar sem fram fóru um helgina.

Myndir og myndskeið af samfélagsmiðlum sýna hvernig lögreglumenn gráir fyrir járnum voru við útganga, en ekkert hefur verið gefið upp um hvað gekk á.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×