Menning

Ferðumst milli tímabila og landa

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
Jane og Björg eru samæfðar eftir árin sín í Noregi.
Jane og Björg eru samæfðar eftir árin sín í Noregi.
„Við köllum tónleikana Á ferð enda má segja að við ferðumst bæði milli tímabila og landa í dagskránni,“ segir Jane Ade Sutarjo píanóleikari um fyrstu tónleikana í syrpunni 15:15 í Norræna húsinu þetta haustið. Þeir hefjast klukkan 15.15 á morgun, sunnudag.

Þar spila þær saman, hún og Björg Brjánsdóttir flautuleikari. Báðar fluttu þær heim til Íslands síðasta vor eftir nám við Tónlistarháskóla Noregs, Jane með meistaragráðu og Björg einleikarapróf. Jane segir þær oft hafa komið fram sem dúó í Noregi og nú haldi þær áfram samspilinu hér á landi.

Á efnisskránni í Norræna húsinu er allt frá barokktónlist eftir Bach til nýlegs verks eftir Báru Gísladóttur sem heitir Skökk stjarna.

„Við spilum líka þrjú lög að austan fyrir flautu og píanó, þau eru úr segulbandasafni Stofnunar Árna Magnússonar en í útsetningu eftir Snorra Sigfús Birgisson og svo er ein geysivinsæl sónata eftir César Franck: Sónata í A dúr,“ lýsir Jane.

Jane fæddist í Djakarta í Indónesíu og hóf píanónám ung að aldri hjá móður sinni. Hún flutti til Íslands 2008 og fór í Listaháskóla Íslands þar sem hún lærði á fiðlu hjá Guðnýju Guðmundsdóttur og á píanó hjá Nínu Margréti Grímsdóttur og seinna hjá Peter Máté. Hún kennir nú á píanó við Tónskóla Sigursveins og Tónlistarskóla Kópavogs auk þess að starfa sem meðleikari.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.