Viðskipti innlent

Hægir á hækkun fasteignaverðs

Sæunn Gísladóttir skrifar
Fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 0,3 prósent í júlí.
Fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 0,3 prósent í júlí. Vísir/Anton Brink
Fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 0,3 prósent í júlí samkvæmt tölum Þjóðskrár.

Þar af hækkaði verð á sérbýli um 1,2 prósent og verð á fjölbýli um 0,1 prósent. Hagfræðideild Landsbankans greinir frá því að annan mánuðinn í röð voru hækkanir minni en verið hefur undanfarna mánuði.

Hækkanir frá fyrra ári eru enn mjög miklar. Samkvæmt tölum Þjóðskrár hefur verð á fjölbýli hækkað um 18,9 prósent á síðustu 12 mánuðum og verð á sérbýli um 19,1 prósent.

Heildarhækkunin nemur 19 prósent, sem er rúmum fjórum prósentustigum minna en var í maí.

Verð á fjölbýli lækkaði í síðasta mánuði og er nær óbreytt nú. Það virðist því sem ró sé yfir þeim markaði núna, en verð á sérbýli hækkar enn í svipuðum takti og verið hefur.

Of snemmt er að segja til um hvort ákveðin mettun sé komin yfir markaðinn með fjölbýli þar sem sumarið er oft rólegur tími í fasteignaviðskiptum.Verðbólga hefur verið lítil og stöðug síðustu misseri og því hefur raunverð fasteigna hækkað mun meira en ella.

Að undanskildum húsnæðiskostnaði hefur ríkt verðhjöðnun í hagkerfinu frá því um mitt ár 2016.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×