Erlent

Kveikti í verslun Indverja sem hann taldi Araba

Nína Hjördís Þorkelsdóttir skrifar
Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Myndin tengist fréttinni ekki beint. vísir/getty
Maður í Flórída gerði tilraun til þess að kveikja í verslun í eigu Indverja í þeirri trú að eigendurnir væru Arabar. Washington Post greinir frá.

Við yfirheyrslur viðurkenndi maðurinn að hann teldi réttast að „bola öllum Aröbum burt úr landinu.“

Brennuvargurinn er 64 ára gamall Bandaríkjamaður að nafni Richard Leslie Lloyd. Honum tókst ekki ætlunarverk sitt en lögregla var kölluð á vettvang þegar nærstadda fór að gruna að ekki væri allt með felldu. 

Hafði Lloyd þá kveikt í ruslagámi við búðina sem hann hafði stillt upp fyrir framan aðalinngang hennar. Slökkviliði tókst að ráða niðurlögum eldsins án mikilla vandkvæða.

Í lögregluskýrslu kemur fram að Lloyd hefði látið sjá sig í búðinni nokkrum dögum fyrr. Hann hafði ekki fundið uppáhalds appelsínusafann sinn þar og komist í talsvert uppnám.

Síendurtekin atvik af svipuðu tagi hafa komið upp að undanförnu. 

Í síðustu viku var 39 ára maður skotinn í Washington-fylki af manni sem taldi hann vera Araba. Í síðasta mánuði var skotið á tvo Indverja í Kansas með þeim afleiðingum að annar þeirra lést. „Farið úr landinu mínu,“ hrópaði byssumaðurinn áður en hann tók í gikkinn.

Árásarmaðurinn taldi að mennirnir væru frá Íran.  

Samtök Bandaríkjamanna af suður-asískum uppruna birtu skýrslu síðla árs 2016 þar sem fram kom að hatursglæpir í Bandaríkjunum, í garð asískra innflytjenda, hefðu aukist um 34 prósent í fyrstu vikunni eftir forsetakosningarnar 8. nóvember.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×