Erlent

„Faðir internetsins“ með áætlun gegn gervifréttum

Kjartan Kjartansson skrifar
Tölvunarfræðingurinn Tim Berners-Lee hefur áhyggjur af gervifréttum sem dreift er á netinu.
Tölvunarfræðingurinn Tim Berners-Lee hefur áhyggjur af gervifréttum sem dreift er á netinu. Vísir/Getty
Halda verður áfram að hvetja samfélagsmiðla og leitarvélar á netinu til þess að berjast gegn útbreiðslu „gervifrétta“, að sögn Tim Berners-Lee sem gjarnan er nefndur faðir veraldarvefsins.

Gervifréttir hafa verið í deiglunni, ekki síst í kjölfar forsetakosninganna í Bandaríkjunum. Talið er að lygar og áróður sem settur var fram sem fréttir og dreift á netinu hafi jafnvel ráðið úrslitum í kosningunum síðasta haust.

Í opnu bréfi í tilefni af 28 ára afmæli internetsins leggur Berners-Lee fram fimm ára áætlun í ljósi þeirra áhyggna sem hann hefur af því hvernig verið er að nota netið um þessar mundir, að því er kemur fram í frétt breska ríkisútvarpsins BBC.

Þó að hann vilji að samfélagsmiðlafyrirtæki og leitarvélar leggi sitt af mörkum varar Berners-Lee við því að miðstýrð stofnun ákveðið hvað sé satt og hvað ekki.

Viss algrím sem notuð eru á samfélagsmiðlum og leitarvélum geti aukið vægi æsifrétta sem er ætlað að koma lesandanum á óvart eða hneyksla á kostnað sannleikans. Berners-Lee segir að efni af þessu tagi get breiðst út eins og eldur í sinu.

Þá telur hann vísbendingar um að óprúttnir aðilar séu farnir að beita beinum pólitískum auglýsingum á netinu á ósiðlegan hátt. Tilgangurinn sé til dæmis að letja fólk til þess að kjósa eða beina því inn á gervifréttasíður.

Á meðal tillagna hans er að netfyrirtæki taki upp áskriftargjöld eða annars konar gjaldtöku til þess að komast af án auglýsingatekna af þessu tagi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×