Innlent

Fær ekki bætur vegna árásar á Litla-Hrauni

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Fanginn var dæmdur í þriggja mánaða fangelsi vegna árásarinnar, en hann á talsverðan sakaferil að baki.
Fanginn var dæmdur í þriggja mánaða fangelsi vegna árásarinnar, en hann á talsverðan sakaferil að baki. vísir/anton
Íslenska ríkið var í síðustu viku sýknað af tæplega 800 þúsund króna skaðabótakröfu manns sem varð fyrir árás af hálfu annars fanga á Litla-Hrauni árið 2011. Maðurinn, sem fyrir árásinni varð, sagðist ekki hafa fengið þá vernd sem hann átti rétt á innan veggja fangelsisins - sem dómurinn var ósammála.

Atvikið átti sér stað þegar maðurinn, sem var refsifangi á Litla-Hrauni, var sofandi í fangaklefa sínum í maí 2011, skömmu eftir að fangavörður hafði aflæst dyrunum að klefa hans. Hinn fanginn fór þá inn í klefann og sló manninn í andlitið, en hann varí framhaldinu dæmdur í þriggja mánaða fangelsi vegna árásarinnar.

Ríkið benti á að venju samkvæmt séu fangaklefar opnaðir klukkan átta að morgni, eftir að hafa verið læstir að næturlagi. Hinn fanginn hafi ekki orðið uppvís að ofbeldi eða hótunum og því hafi fangaverðir ekki haft ástæðu til að ætla að hann myndi ráðast að manninum eða öðrum.

 Þá sé óheimilt að hafa eftirlitsmyndavélar inni í fangaklefum. Fangar megi sömuleiðis fara á milli klefa og leggi þeir mikið upp úr því að halda heimildum til þess. Fangaverðir bregðist hins vegar strax við verði þeir varir við átök.

Jafnframt var bent á að maðurinn hafi ekki gert kröfur um bætur þegar hinn fanginn var ákærður fyrir árásina.

Héraðsdómur Reykjavíkur taldi fangaverði hafa í umrætt sinn fylgt öryggisreglum og hafnaði því að íslenska ríkið væri skaðabótaskylt vegna málsins. Allur málskostnaður, þar á meðal þóknun lögmannsins, greiðist úr ríkissjóði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×