Fótbolti

David Villa líður vel í New York borg og er ekki á förum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
David Villa fagnar marki.
David Villa fagnar marki. Vísir/Getty
Spánverjinn David Villa hefur fundið sig vel í New York og hann ætlar að spila áfram í MLS-deildinni.

David Villa hefur nú framlengt samning sinn við New York City liðið fram til loka 2018 tímabilsins.  Hann verður 36 ára í desember.

David Villa kom til New York árið 2014 eftir eitt tímabil með Atlético Madrid en þar áður lék hann með Barcelona frá 2010 til 2013.

Þjálfari New York City er Frakkinn Patrick Vieira og hann var kampakátur með nýjan samninginn.

„Þetta eru mjög góðar fréttir fyrir mig, góðar fréttir fyrir klúbbinn og góðar fréttir fyrir Villa ekki síst þegar við skoðum hvernig hann hefur hefur verið að spila hér og fjölda marka sem hann hefur skorað fyrir félagið,“ sagði  Patrick Vieira í viðtali á heimasíðu New York City.

David Villa hefur skorað 44 mörk í 68 deildarleikjum með liði New York City og var verið valinn mikilvægasti leikmaður deildarinnar 2016.

„Ég var svo stoltur þegar þeir völdu mig til að vera fyrsta fyrirliða liðsins fyrir þremur árum. Það var frábært verkefni að fá að taka þátt í því að koma þessu félagi á laggirnar. Það er magnað að sjá hversu langt við höfum komist á ekki lengri tíma,“ sagði David Villa.

„Ég er svo ánægður hér í þessari borg og hjá þessu félagi. Ég er í góðu formi og get áfram gert góða hluti inn á vellinum. Ég er ekki tilbúinn að fara út á hliðarlínu strax. Þess vegna var þetta ekki erfið ákvörðun fyrir mig,“ sagði Villa.

David Villa er markahæsti spænska landsliðsins frá upphafi með 59 mörk í 97 landsleikjum og varð bæði heims- og Evrópumeistari með Spáni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×