Borgarleikhúsið hefur ákveðið að bjóða upp á svokallaðar Sing-along sýningar á hinum vinsæla söngleik Mamma mia. Tvær Sing-along sýningar verða, annars vegar þann 7. júní og hins vegar þann 14. júní en seinni sýningin verður næstsíðasta sýning söngleiksins í leikhúsinu þar sem sýningum lýkur þann 15. júní.
Í tilkynningu frá Borgarleikhúsinu segir að gríðarleg eftirspurn hafi verið eftir því að boðið verði upp á Sing-along sýningar en á slíkum sýningum fá gestir tækifæri til að syngja og dansa með lögunum í söngleiknum.
Þær hafa notið mikilla vinsælda í leikhúsum og kvikmyndahúsum, bæði hér heima og erlendis, en íslenskum söngtextum ABBA-laganna verður varpað á tjald þannig að allir geti sungið með. Þeir sem mæta í búningum fá svo sérstakan glaðning.
Miðasala er hafin á vef Borgarleikhússins.
