Hinn sigursæli þjálfari NFL-meistara New England Patriots, Bill Belichick, gæti þurft að bera vitni í morðmáli sem fyrrum leikmaður hans er sakaður um að hafa framið.
Búið er að bæta nafni Belichick á lista yfir möguleg vitni í morðmálinu. Áður hafði nafn Josh McDaniels, sóknarþjálfara Patriots, verið sett á listann.
Það er Aaron Hernandez, fyrrum innherji Patriots, sem er sakaður um tvöfalt morð. Hann er sakaður um að hafa myrt tvo menn eftir að annar þeirra hafði hellt yfir hann drykk á skemmtistað árið 2012.
Hernandez segist vera saklaus en réttarhöld hefjast þann 1. mars.
Hernandez er að afplána lífstíðardóm eftir að hafa verið sakfelldur fyrir annað morð árið 2013.
Þjálfari Patriots gæti þurft að bera vitni í morðmáli
Henry Birgir Gunnarsson skrifar
