Erlent

18 ára karlmaður ákærður fyrir sprengjuárás í London

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Frá Parsons Green lestarstöðinni í London.
Frá Parsons Green lestarstöðinni í London. Vísir/AFP
18 ára karlmaður var í dag ákærður fyrir morðtilraun vegna sprengingarinnar í lestarkerfi London fyrir viku. Samkvæmt frétt BBC verður maðurinn, sem heitir Ahmed Hassan, einnig kærður fyrir vopnaeign vegna sprengjunnar.

Sprengingin varð í Parsons Green lestarstöðinni klukkan 8:20 að morgni 15. september og sagði lögregla tveimur tímum síðar að um hryðjuverk væri að ræða. Enginn lést í árásinni en þrjátíu slösuðust, flestir þeirra með brunasár en einhverjir meiddust í troðningnum í lestinni.

Talið er að sprengingin hafi komið frá fötu sem komið var fyrir í lestinni á háannartíma en mikinn eldur fylgdi sprengjunni sem talið er að hafi verið tímastillt. Sprengjan virkaði hugsanlega ekki að fullu og hefði skaðinn þá verið mun meiri ef hún hefði virkað eins og henni var ætlað.

Lögregla handtók fimm aðra menn í tengslum við rannsókn málsins og eru þrír þeirra enn í gæsluvarðhaldi, mennirnir eru á aldrinum 17 til 30 ára. Tveimur mönnum hefur verið sleppt úr haldi lögreglu.

Hundruð lögregluþjóna og starfsmenn annarra öryggisstofnanna voru með umfangsmikla leit af sprengjumanninum og þeim sem gætu hafa aðstoðað hann.Yfirvöld báru kennsl á hann eftir að hafa farið yfir upptökur úr öryggismyndavélum í lestakerfi London.

Sadiq Khan, borgarstjóri London fordæmdi árásina en þetta er fimmta hryðjuverkaárásin í London á þessu ári. Samkvæmt BBC segjast yfirvöld hafa náð að koma í veg fyrir sex árásir. Lögregla rannsakar enn málið og hefur gert húsleit á nokkrum stöðum.


Tengdar fréttir

Tveir handteknir til viðbótar

Tveir karlmenn til viðbótar hafa verið handteknir í tengslum við hryðjuverkaárasina í Parsons Green lestarstöðina í London síðastliðinn föstudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×