Skoðun

Tröppur á hjúkrunarheimili

Sesselja Guðmundsdóttir skrifar
Móðir mín (94 ára) fór á hjúkrunarheimilið Víðihlíð í Grindavík fyrir um tveimur mánuðum og var búin að bíða eftir vist í nokkur ár. Heimilið er ríkisrekið. Þar eru enn tveggja manna herbergi þannig að móðir mín deilir litlu herbergi með ókunnri konu. Skömm er að. Starfsfólkið er yndislegt og sem betur fer talar það íslensku.

Móðir mín er hálf blind, engin sjón á öðru auga en um fjögur prósent á hinu. Hún kýs að ganga stigann á milli hæðanna (t.d. að útgangi) til þess að halda sér í formi en þrepamerkingarnar (hvít lína) eru afmáðar sumstaðar. Hún á erfitt með að átta sig á þrepunum fyrir vikið. Ég nefndi þetta við yfirmann heimilisins og taldi hreinlega víst að slitið væri bara athugunarleysi. Nei, aldeilis ekki. Ríkið hefur ekki brugðist við ítrekuðum athugasemdum, bæði yfirstjórnar heimilisins, Vinnueftirlits og Heilbrigðiseftirlits í 2-3 ár!

Það þarf að útbúa einstaklingsherbergi í Víðihlíð strax. Framkvæmdasjóður aldraðra (FA) hefur ekki staðið undir nafni frá 2011 þegar ríkið leyfði að fé hans færi til reksturs heimila en hvorki viðhalds né framkvæmda eins og til var stofnað. Nú er lag hjá ríkri þjóð að afnema þessa heimild og láta FA sinna sínum frumskyldum, t.d. að gera umhverfi gamalmennanna sómasamlegt og öruggt. „Það er engin ástæða til þess að borða naglasúpu þegar vel árar,“ segir nýr formaður sjóðsins, dr. Guðrún Alda Harðardóttir. Er farin að efast um kraft heilbrigðisráðherra en ef hann læsi nú þessi orð myndi hann líklega láta laga tröppurnar í Víðihlíð með einu pennastriki. Eða hvað?

 

 




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×