Á nokkuð skömmum tíma hefur Hafsteinn Gunnar Sigurðsson komið sér í hóp efnilegri íslenskra kvikmyndagerðarmanna starfandi í dag, með gott auga og ástríðufullt grip á þemum sem tengjast ljúfsárum, en yfirleitt fyndnum, samskiptum fólks. Hafsteinn sýnir áhuga persónum sem lengi hafa þurft á sjálfsskoðun eða breytingu að halda, yfirleitt persónum sem eru fastar í einsleitri tilveru. Sambandsslit spila líka gjarnan stóra rullu á einhverjum tímapunkti í öllum verkum mannsins.
Fyrsta myndin hans Hafsteins í fullri lengd, Á annan veg frá 2011, er með þeim vanmetnari sem hafa lengi komið frá þessum klaka. Þremur árum seinna kom svo París norðursins sem átti fína spretti en var aðeins of mikið „bla“ að mati undirritaðs. Nú hafa þeir Huldar Breiðfjörð (sem skrifaði einnig París með Hafsteini) mótað svarta kómedíu, prakkaralega og lúmskt áhrifaríka sem varpar ljósi á sorg og gildrur samskipta- og tengingarleysis á virkilega ferskan máta, með hæfilega óvæntri og brenglaðri framvindu.
Handritið er einfalt í grunninn en spilar með flóknar tilfinningar sem sjaldan eru stafaðar út. Þetta á líka við um það hvernig upplýsingar komast til skila, hvaða spurningum handritið svarar og hvar áhorfendur geta leyft sér að fylla í eyðurnar.
Hafsteini tekst að segja margt með ótal smáatriðum og fær góðan stuðning frá tvennu sem skiptir heildarsvip myndarinnar öllu máli. Fyrst ber að nefna vandaða kvikmyndatöku Moniku Lenczewska, sem gefur sögunni viðeigandi kalda, í raun dapurlega pallettu. Síðan er það býsna geggjuð tónlist frá Daníel Bjarnasyni sem býr til magnandi og furðulegan drunga (með smá aðstoð frá Bach og Rachmaninoff).
Músíkin á sömuleiðis stóran þátt í því hvernig heildin skiptir svo listilega um gír, úr gríni í alvöru, þó myndin eigi það vissulega til að vera grafalvarleg og fyndin á sama tíma. Og stundum drephlægileg.

En öll dýnamík karaktera og leikara eins og hún leggur sig, ásamt þrívíðum, mannlegum eða snarbiluðum hliðum þeirra, innsiglar meðmælin. Þar koma til dæmis Þorsteinn Bachmann, Selma Björnsdóttir, Lára Jóhanna Jónsdóttir og (sérstaklega) Siggi Sigurjóns mjög sterk inn. Steindi Jr. kemur einnig vel út með stórfínum leik sem jafnast samt ekki á við áreynslulaus tilþrifin hjá reyndari mótleikurum hans, en hann leggur sig allan fram og passar í hlutverk sem er meira marglaga en mætti halda í fyrstu.
Hlutverk Steinda og þróun hans í myndinni hefur að vísu ekki sama bit í sér og allt sem viðkemur eldra settinu og deilum þess við nágranna sína. Reyndar hefði mátt gera ögn meira með Selmu, jafnvel Víking Kristjáns og Nönnu Kristínu Magnúsdóttur, en um þau tvö má svo sem deila.
Nágrannastríð í bíómyndum, gaman eða drama, er formúla sem tekið hefur ýmiss konar form. Með þessari mynd hefði einmitt verið auðvelt að ganga of langt með grínið, en hún skarar fram úr með einlægri rödd sem styrkir hana og karakterana, auk þess að ná svona fínt að trekkja upp lágstemmdan spennugjafa úr vaxandi gremjunni.
Undir trénu er laus við tilgerð og rembing, og þess í stað kemur yndislega rugluð, hnyttin, tragísk og faglega unnin mynd á flestan máta, frá klippingu til hljóðvinnslu. Sem bónus er hún hlaðin ýmsum ógleymanlegum litlum atvikum og ljúfum skammti af vægðarleysi, tilfinningadýpt og kaldhæðni í leiðinni. Bara gaman.
Niðurstaða: Brakandi fersk kómedía í dekkri kantinum. Vel skrifuð og heldur dampi með fyndnum ágreiningi og ekki síst æðislegu samspili leikhópsins.